Wollstonecraft og spurningin um femínískt kvenhatur

Þann 27. nóvember kl. 12:00-13:00 flytur Eyja Margrét Brynjarsdóttir fyrirlesturinn „Wollstonecraft og spurningin um femínískt kvenhatur“ í stofu 104 á Háskólatorgi.

Enski heimspekingurinn og rithöfundurinn Mary Wollstonecraft gegndi miklu brautryðjendahlutverki í réttindabaráttu kvenna, ekki síst með riti sínu „A Vindication of the Rights of Woman“. Með upplýsingarhugsjónina að leiðarljósi lagði hún áherslu á að sem skynsemisverur væru kynin jafningjar og þar með bæru þeim sömu réttindi. Í skrifum sínum var hún óvægin í gagnrýni sinni á mörg þau hlutverk sem konur birtust í og þau einkenni sem greina mætti í fari þeirra. Fyrir lýsingar sínar á þessum hlutverkum hefur Wollstonecraft stundum verið sökuð um kvenfyrirlitningu, sem félli þá undir það sem kallað hefur verið femínískt kvenhatur. Ásakanir sem þessar vekja upp spurningar um nákvæmlega hvað kvenhatur eða kvenfyrirlitning geti verið, þ.e. hvert viðfang þess sé. Hver er hún þessi kona sem er fyrirlitin eða hötuð? Er hún raunveruleg eða ímynduð? Er mögulegt að gera grein fyrir kvenhatri ef það er ekki ljóst hvað það er að vera kona? Að hverju beinist þá hatrið? Er rétt að túlka neikvæða afstöðu gagnvart hvaða kvenímynd sem er sem kvenfyrirlitningu? Þessar spurningar verða ræddar með það fyrir augum að svara því hvort rétt sé að segja að Wollstonecraft hafi gerst sek um kvenfyrirlitningu.