Þann 18. september kl. 12:00-13:00 heldur Þóra Kristín Þórsdóttir fyrirlesturinn „Heimilið: á undan eða eftir í jafnréttismálum?“ í sal 104 á Háskólatorgi.
Eru íslenskir karlmenn liðtækari í heimilisstörfunum en karlar á hinum Norðurlöndunum? Eru einhver ákveðin störf sem karlar vilja frekar gera en önnur? Hvernig verður verkaskiptingin til? Þetta er meðal spurninga sem Þóra Kristín Þórsdóttir, aðferðafræðingur og aðjúnkt í Háskólanum á Akureyri, mun fjalla um í erindi sínu en hún gerði meistararannsókn um skiptingu heimilisstarfa milli kynja á Íslandi. Í rannsókninni, sem unnin var fyrir meistarapróf í aðferðafræði við London School of Economics sumarið 2007, er bæði byggt á megindlegum og eigindlegum aðferðum. Notuð voru gögn úr endurtekningu á International Social Survey 2005 auk þess sem tekin voru viðtöl við sex útivinnandi hjón með börn.
Þóra Kristín Þórsdóttir er með Msc próf í aðferðafræði félagsvísinda frá London School of Economics og BA gráðu frá Háskóla Íslands í bókmenntafræði og mannfræði. Hún hefur kennt aðferðafræði félagsvísinda í Háskóla Íslands og í Háskólanum á Bifröst auk þess að hafa unnið sem blaðamaður á 24stundum. Hún sérhæfir sig í kynjarannsóknum á samspili heimilis og vinnu. Þóra er aðjúnkt í hug- og félagvísindadeild HA.