27. mars fluttu Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við KHÍ, og Ingibjörg H. Harðardóttir, lektor við KHÍ, fyrirlesturinn Hugmyndin um leynd og vanþekkingu á ofbeldi á heimilum. Stendur hún traustum fótum meðal stelpna og stráka?

Rannsóknin Þekking barna á ofbeldi á heimilum er unnin af átta konum, nemum og kennurum við KHÍ (2006 – 2008). Hún er styrkt af Rannsóknarsjóði. Spurningalistakönnun fór fram meðal barna í 4.- 10. bekk grunnskóla, 1125 tóku þátt. Nú standa yfir viðtöl við börn sem hafa búið við ofbeldi á heimilum og undirbúningur að greiningu á efni valinna prentmiðla. Einungis hafa farið fram tvær rannsóknir á þekkingu og skilningi hjá hópi barna úr almennu þýði, svo vitað sé, bresk rannsókn sem lauk 2002 og svissnesk 2006. Niðurstöður okkar eru margvíslegar. Í erindinu var sjónum beint að kynbundnum muni á þekkingu, skilningi og viðhorfum, sem einnig kom fram erlendis. Hann sést m.a. þannig að í hópi þátttakenda eru unglingsstúlkur fróðastar um efnið. Einnig vék Guðrún að aðferðafræðilegum atriðum, því að nýta og aðlaga breskan spurningalista, sem snertir m.a. ólík jafnréttisviðhorf og spurningar um uppruna. Ingibjörg H. Harðardóttir lektor, vinnur ásamt Guðrúnu að þeim þætti rannsóknarinnar sem snýr að kynjagreiningu.