Sagnfræðingurinn dr. Andrea Petö frá Ungverjalandi flutti fyrirlesturinn Ungverskar konur og stjórnmál eftir 1945 í stofu 101 í Odda, fimmtudaginn 7. desember kl. 12.15.
Þátttaka kvenna í ungverskum stjórnmálum eftir lok síðari heimsstyrjaldar er hluti hinnar gleymdu sögu. Það kemur í ljós þegar farið er að skoða þær félagshreyfingar sem voru mest áberandi á árunum eftir stríð. Í fyrirlestrinum voru rakin örlög ungverskra kvennahreyfinga á árunum 1945-1951, sem voru bæði margar og margvíslegar. Petö byggir m.a. á minningum kvenna sem náðu ótrúlegum frama innan kerfisins og reynslu þeirra (e. lived experience). Rannsóknir hennar byggjast á frumheimildum, skýrslum, upptökum og bréfasöfnum kvennahreyfinga sem voru bannaðar eftir 1945. Skjöl þeirra voru fyrst gerð opinber árið 1994. Í fyrirlestrinum greinir Andrea Petö einnig helstu stjórnmálahreyfingar Ungverjalands á tímabilinu út frá kynjasjónarhorni og tengir við æviminningar kvenna og heimildir um samtök Gyðingakvenna.
Dr. Andrea Petö er sagnfræðingur og dósent í kynjafræði við Central European University í Búdapest, dósent við Háskólann í Miskole og gestaprófessor við ELTE í Búdapest í þjóðernis- og minnihlutafræðum. Hún hefur fengist mikið við rannsóknir þar sem munnlegar heimildir og minningar eru meginuppistaða heimilda. Hún ritstýrði nýlega greinasafninu Teaching with Memories ásamt Berteke Waaldijk. Andra Petö er mjög virk í evrópsku samstarfi á sviði kynjafræða.