16. febrúar hélt Arnfríður Guðmundsdóttir, guðfræðingur, erindið Kúgunartæki eða tákn um von? Um túlkun og hlutverk krossins í kristinni trúarhefð.
Á síðustu áratugum hefur komið fram sterk gagnrýni á hvers konar tilhneigingu til þess að göfga eða jafnvel réttlæta þjáninguna í skjóli krossins. Femínískir guðfræðingar hafa verið afgerandi í þessari gagnrýni og m.a. bent á að konur sem búa við undirokun og ofbeldi séu oft hvattar til að sætta sig við aðstæður sínar og „taka upp kross sinn og fylgja Kristi“. Af þessum sökum er það skoðun margra úr hópi femínískra guðfræðinga að krossinn geti ekki virkað sem lífgefandi tákn fyrir konur. Aðrar hafa bent á að ekki sé réttlætanlegt að afskrifa krossinn vegna þess að hann sé misnotaður og mikilvægt að árétta lykilhlutverk þessarar gagnrýni til þess að krossinn fái að njóta sín sem raunverulegt tákn um von andspænis illsku og þjáningu. Í því samhengi sé hlutverk krossins annars vegar að árétta samstöðu Guðs í þjáningunni og hins vegar að hvetja til aðgerða og andófs gegn allri misnotkun valds.