2. mars hélt Heiða Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur, erindið Borg heitra kvenna og hríðarbylja. Menningarleg mótun Reykjavíkurborgar sem heitu borgarinnar í norðri.

Ímynd Reykjavíkurborgar sem villtrar næturlífsborgar hefur verið áberandi í markaðssetningu til erlendra ferðamanna undanfarin ár. Í þessari ímyndasmíð er gert út á allt frá drykkjumenningu Íslendinga til nýfundinnar heimsborgaramenningar þeirra. Miðpunktur orðræðunnar eru þó bein og óbein fyrirheit um að aðgang að “lauslátum” og “hreinræktuðum” norrænum konum. Í fyrirlestrinum var fjallað um hvernig rótgróin túristaorðræða, sem hverfist um andstæður elds og íss, hita og kulda, er yfirfærð á borgarlandslagið. Velt var upp spurningum um hvernig staðarímynd á borð við þessa verður til, hvernig er henni viðhaldið eða hvernig tekist er á um hana.