Þann 30. mars flutti Erla Hulda Halldórsdóttir, sagnfræðingur, erindið Er ég hún? Hugleiðingar um sendibréf og siðareglur.
Í fyrirlestrinum var rætt um notkun sendibréfa við sagnfræðirannsóknir, um túlkun þeirra og framsetningu. Stuðst var við skrif breska félagsfræðingsins Liz Stanley, sem hefur skrifað fjölda greina um ferlið milli lífs sem var lifað og lífs á bók (lives lived – written lives). Þá var sjónum beint að framleiðslu þekkingar og hugmyndum um „rétta“ söguritun, um meint hlutleysi fræðimannsins og afstöðu hans til viðfangsefni síns. Yfirskrift fyrirlestursins vísar þannig til hvoru tveggja í senn; þess hvort túlkun fræðimanns á liðnu lífi sé trúverðug, hvort hinn látni myndi þekkja sig í þeirri lýsingu; og til þess hvort fræðimaðurinn sjái sitt eigið líf, sínar eigin hugsanir í viðfangsefni sínu.