Þann 15. september hélt Lára Marteinsdóttir, kvikmyndafræðingur, erindið Frelsun mannanna, frelsisins lind? Konan og kristsmýtan í kvikmyndum.
Í erindi sínu fjallaði Lára um kvikmyndir og kyngervi. Frá upphafi kvikmyndasögunnar hefur verið um það deilt að hve miklu leyti
kvikmyndir endurspegli samtíð sína og/eða móti hana. Tekist er á um túlkun kvikmynda; t.d. um vægi hugmyndafræði eða mýta í persónusköpun og að hve miklu leyti hið persónulega endurspegl hið pólitíska.
Á þessum hádegisfundi voru barnsfæðingar í kvikmyndum skoðaðar í þessu ljósi og fyrirbærið greint sérstaklega út frá kynjafræðilegu sjónarhorni, en hátt hlutfall drengja í téðum fæðingum hlýtur að vekja athygli.
Einnig var fjallað um líkamann í kvikmyndum, hvernig hann er innrammaður og hvernig lesa megi vald, vægi eða veikleika hans
(ómeðvitað eða meðvitað) í myndbyggingunni. Skoðað var hvernig erótísk spenna, helsi eða frelsi söguhetjanna er byggt upp og viðhaldið með klippingu eða umsnúið og jafnvel brotið á bak aftur með sviðsetningu, eða mise-en-scene, í atburðarrásinni.
Brugðið var upp fjölmörgum sýnishornum úr gömlum og nýjum kvikmyndum, m.a. úr: Rosemary´s Baby (1968) e. Roman Polanski, Penny Serenade (1941) e. George Stevens, The Crowd (1928) e. King Vidor, Spartacus (1960) e. Stanley Kubrick, Heavenly Creatures (1994) e. Peter Jackson og Antonia´s Line (1995) e. Marleen Gorris.