Konur og sjávarútvegur á Norðurslóðum

Þann 10. nóvember kynnti Anna Karlsdóttir landfræðingur rannsóknina Konur í fiskeldi á Íslandi sem var gerð árið 2004 og byggist á eigindlegri og megindlegri aðferðafræði. Símakönnun var framkvæmd meðal allra skráðra fyrirtækja í fiskeldi á Íslandi til að fá yfirlit yfir stærð og eðli fyrirtækja og hlutfall og stöðu kvenna innan þeirra. Út frá þessum upplýsingum var þátttaka kvenna í mismunandi störfum innan fiskeldis kortlögð og konunum var skipt gróft upp í þrjá hópa út frá því á hvaða hátt þær koma að atvinnugreininni: 1) starfsmenn í mismunandi störfum, 2) eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna, 3) fræðimenn og rannsakendur sem koma beint og óbeint að greininni í tengslum við rannsóknar- og/eða þróunarvinnu. Í framhaldi voru tekin viðtöl við nær allar konur sem viðriðnar eru fiskeldi á Íslandi í dag.

Rannsóknin var hluti af stærri fjölþjóðlegri norðurskautsrannsókn um þátttöku kvenna í ákvarðanatöku í auðlindastjórnun. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa einnig nýst við alþjóðlegan samanburð á stöðu kvenna í sjávarútvegi og fiskeldi víða um heim.