Þann 20. janúar heldur Helga Björnsdóttir, mannfræðingur, fyrirlesturinn Í kynlegu rými götunnar: um heimilislaust fólk.
Viðfangsefni fyrirlestursins er gatan sem huglægt og hlutlægt rými. Skoðuð er upplifun heimilislauss fólk af þessu rými en það er án efa einna af þeim þáttum sem hafa áhrif á sjálfsmyndarsköpun fólksins, enda lifir það í stöðugu návígi við rýmið. Heimilislaust fólk dregur upp sterka mynd af götunni sem ákveðnu félagslegu rými. Í frásögnum heimilislausra endurspeglast vel að það að verða heimilislaus, að lenda á götunni, hefur ekki einungis í för með sér félagslega og rýmislega tilfærslu heldur fylgir því einnig ákveðin endurskilgreining samfélagsins á einstaklingnum.
Í fyrirlestrinum er upplifun og reynsla heimilislauss fólks í fyrirrúmi og því meðal annars lýst hvernig gatan krefst ákveðins atbeina af fólki, komið er inn á líkamlega upplifun, kynskiptingu rýmisins og það tímaleysi sem götulífið hefur í för með sér.
Helga Þórey Björnsdóttir lauk meistaraprófi í mannfræði frá Háskóla Íslands í júní 2004. Lokaritgerð hennar fjallar um heimilislaust fólk í Reykjavík og ber heitið „Við útigangarnir“ Sjálfsmyndin í orðræðum heimilislauss fólks. Helga starfar nú við stundakennslu við HÍ jafnframt því sem hún vinnur með dr. Kristínu Loftsdóttur dósent í mannfræði við HÍ að rannsókn Kristínar, „Ímyndir Afríku á Íslandi.“