Þann 17. febrúar heldur Sigríður Elín Þórðardóttir, félagsfræðingur, fyrirlesturinn Athafnafólk: Skiptir kynferði máli?
Rannsóknir hafa leitt í ljós að eitt helsta einkenni atvinnulífsins um allan heim er að mun færri konur en karlar eru virkar í frumkvöðlastarfsemi og atvinnurekstri.
Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var meðal kvenna og karla sem reka eigin fyrirtæki. Leitað var svara við því af hverju mun færri konur en karlar reka eigin fyrirtæki og hvort það skiptir máli fyrir samfélagið að auka hlut kvenna í atvinnurekstri. Lagðar verða til grundvallar kynjafræðileg sjónarhorn sem komið hefur fram á undanförnum árum þ.á.m. kenningar um útilokun með orðræðu sem birtist m.a. í aðgangshindrunum og kynjun starfsgreina.
Sigríður Elín Þórðardóttir lauk meistaraprófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands í júní 2004. Fyrirlesturinn sem hér verður fluttur er byggður á meistararitgerð hennar. Sigríður Elín starfar nú á Þróunarsviði Byggðastofnunar.