Fimmtudaginn 11. mars hélt Ragnheiður Kristinsdóttir, M.Phil. í evrópskum bókmenntum, fyrirlestur er nefnist „Herforingjastjórn Argentínu og bókmenntir kvenna. Luisa Valenzuela og „kvenleg skrif” sem þjóðfélagsgagnrýni“. Fyrirlesturinn var haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.25.

Í fyrirlestrinum var fjallað um skrif argentínsku skáldkonunnar Luisu Valenzuela. Skáldsögur hennar og smásögur voru settar í sögulegt samhengi en umfjöllunarefni hennar tengjast mjög gjarna tímabili hins svokallaða La guerra sucia (Óhreina stríðið, e. The Dirty War) í Argentínu; ofbeldi, pyntingum, manndrápum, spillingu, kúgun alþýðunnar og stöðu kvenna í karllægu samfélagi.

Ritstíll Valenzuela er oft og tíðum tilraunakenndur og framúrstefnulegur en hún leikur sér að tungumálinu og blæbrigðum þess. Skáldkonan dregur gjarnan upp kynjamyndir í argentínsku samfélagi auk þess sem hún spilar með afbyggingu þeirra. Hún gagnrýnir einnig feðraveldið og veltir upp hugmyndum um vald, þekkingu og kynverund (e. sexuality). Í því samhengi var fjallað um skrif Valenzuela út frá kenningum um kvenleg skrif (f. écriture féminine) þar sem dregnar voru upp skilgreiningar frönsku feministanna á því hugtaki, sem og enskumælandi fræðikvenna, en ekki síst var stuðst við skilgreiningar fræðikvenna frá rómönsku Ameríku.