Fimmtudaginn 8. apríl hélt Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, fyrirlestur er nefnist „Kynjuð kreppa – karlar og konur í ljósi hagfræðilegrar greiningar“. Fyrirlesturinn var haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12,25-13,25.

Í erindi sínu skoðaði Katrín hvort fjármálakreppan hafi mismunandi áhrif á karla og konur og við hverju má búast á næstu misserum. Sem dæmi má nefna að atvinnuleysi karla jókst mun hraðar en kvenna á fyrstu mánuðum kreppunnar, en ekki er ólíklegt að atvinnuleysi kvenna muni aukast á næstunni. Þá velti hún fyrir sér hvort rekja megi upphaf kreppunnar til mismunandi áhættuhegðunar kvenna og karla.

Katrín kennir hagfræði við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hún er með doktorsgráðu í vinnumarkaðshagfræði frá Cornell University í New York-fylki í Bandaríkjunum, mastersgráðu frá sama skóla og AB-gráðu í hagfræði (Advanced Bachelor‘s degree) frá Occidental College í Kalíforníu. Áður en hún kom til starfa í HR starfaði Katrín meðal annars hjá Pasadena Research Institute, í fjármálaráðuneytinu og á Þjóðhagsstofnun.

Hér má hlusta á upptöku af fyrirlestri Katrínar.