Fimmtudaginn 15. apríl hélt Eygló Árnadóttir, M.A. í kynjafræði, fyrirlestur er nefnist „Ekki benda á mig! Um framkvæmd laga um jafnréttisfræðslu í grunnskólum”.
Frá því jafnréttislög voru fyrst sett hér á landi árið 1976 hafa þau kveðið á um fræðslu um jafnrétti kynjanna á öllum skólastigum. Þrátt fyrir það er í meirihluta af grunnskólum landsins ekki að finna skipulagða jafnréttisfræðslu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um ástæður þess að lagaákvæði um jafnréttisfræðslu í skólum virðist almennt ekki skila sér út í grunnskólana.
Margvíslegir þættir draga úr gagnsemi lagaákvæðisins um jafnréttisfræðslu. Ber þar hæst skortur á vilja til markvissra aðgerða. Hann birtist bæði í tregðu við að útfæra nánar markmið, aðgerðir og framkvæmdir, sem og skorti á fjármagni til málaflokksins. Ítrekaðar fyrirspurnir og þrýstingur þingkvenna úr öllum flokkum yfir 30 ára tímabil á Alþingi hafa litlu skilað.
Í fyrirlestrinum var þeirri spurningu velt upp hvort lagaákvæðið um jafnréttisfræðslu sé dauður lagabókstafur, eða hvort glæða megi það lífi með raunverulegum vilja, skýrari markmiðssetningu, samræmi milli laga, þekkingu og fjármagni.