Fimmtudaginn 6. maí hélt Halldór Oddsson, lögfræðingur (hdl.), fyrirlestur er nefnist „Óbein kynjamismunun – hugtakið í evrópurétti og íslenskum rétti “. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.25.
Í fyrirlestrinum fjallaði Halldór um jafnrétti út frá skilningi lögfræðinnar en jafnréttishugtakið er jafnan skilgreint á tvo vegu, þ.e. formlegt jafnrétti annars vegar og efnislegt jafnrétti hins vegar. Viðurkenning á því að mismunun geti verið óbein jafnt sem bein fól í sér stórt framfaraskref í baráttunni fyrir efnislegu jafnrétti þar sem að dómstólum var í raun gefið leyfi til að meta raunveruleg mismununaráhrif aðgerða.
Halldór skoðaði óbeina kynjamismunun í víðum skilningi þess hugtaks og fjallaði sérstaklega um dæmi úr erlendri dómaframkvæmd er varða óbeina kynjamismunun og þróun hugtaksins í evrópurétti – en sú þróun hefur haft mikil áhrif hér á landi.
Jafnframt var fjallað almennt um lög og reglur er varða efnislegt jafnrétti en á undanförnum árum hefur mikið og merkilegt fræðistarf verið unnið á vettvangi Evrópusambandsins í þeim efnum. Í því samhengi var komið inn á mikilvægi ýmissa ýmissa félagsvísindagreina fyrir lagasmíð og dómaframkvæmd varðandi óbeina mismunun.