Fimmtudaginn 21. október hélt Þóra Björg Sigurðardóttir, M.A. í heimspeki, fyrirlestur er nefnist „‘Besta leikkona í aukahlutverki‘. Að flétta heimspeki kvenna saman við hefðbundna túlkun á heimspekisögunni.“ Fyrirlesturinn var haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.25-13.15.
Kanóna heimspekinnar hefur verið gagnrýnd af femínískum heimspekingum fyrir að halda kvenheimspekingum fyrir utan ritsafn, og þar með vitund, heimspekinema og heimspekinga almennt, þrátt fyrir að þær hafi lagt stund á heimspeki, gefið út rit og tekið þátt í heimspekilegum rökræðum á ólíkum tímum í sögu heimspekinnar.
Í fyrirlestrinum var farið yfir aðferðir til að hreyfa við viðmiðum heimspekikanónunnar, um hvaða höfundar eru lesnir og hverjir ekki, og skýrt frá tilraun sem gerð var í hefðbundnu inngangsnámskeiði í Háskóla Íslands. Tilraunin fólst í því að flétta verk þriggja kvenheimspekinga saman við hefðbundna túlkun á heimspekisögunni í Nýaldarheimspeki. Kvenheimspekingarnir sem urðu fyrir valinu voru þær Elísabet af Bæheimi (1618–1680), Mary Astell (1666-1731) og Damaris Masham (1659-1708). Sýnt var fram á hvað þessar konur lögðu til verka sígildra karlheimspekinga í mikilvægum heimspekilegum málefnum; fjallað um heimspeki sérstaklega út frá sjónarhorni kvenna, stöðu kvenna og kvenréttindabaráttunni; skoðað hvort og hvaða erindi heimspeki þeirra á við heimspekisögunna um leið og lagt var mat á aðferðina sjálfa, þ.e. að flétta heimspeki kvenna saman við hefðbundnar túlkanir á heimspekisögunni.