Fimmtudaginn 24. febrúar heldur Sigrún Sigurðardóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, fyrirlesturinn ‘„Af ástæðuríkum ótta.“ Konur sem hælisleitendur.’ Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.00-13.00.
Í erindinu verður fjallað um hlutskipti hælisleitenda í Evrópu með sérstakri áherslu á reynslu kvenna sem sækja um vernd og viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamenn. Erlendar rannsóknir sýna að kyn mótar með mjög afgerandi hætti upplifun og reynslu flóttafólks af stríðsátökum og ofsóknum. Konur sem sækja um hæli í Evrópu hafa oftar en ekki upplifað atburði sem erfitt er að miðla og segja frá, ekki síst þegar viðmælendur deila ekki þeim forsendum og þeirri menningarlegu reynslu sem konurnar búa yfir. Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á að sýna hvernig aðrir miðlar en tungumálið geta orðið að liði við að miðla sögu sem í raun er ekki hægt að færa fyllilega í orð.
Öll velkomin!