Forystusauður, olía á striga, 1999, eftir Hildi Margrétardóttur

Landssamtök sauðfjárbænda og RIKK, Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, auglýsa styrk til nemanda sem vinna að lokaverkefni til meistaranáms, að lágmarki 30 ETCS einingar. Styrkurinn er ekki bundinn við tilteknar fræðigreinar en verkefnið felur í sér rýni í orðræðu í íslenskum fjölmiðlum um sauðfjárbændur þar sem byggt er á eigindlegri og megindlegri aðferðafræði og orðræðu- og innihaldsgreiningu er beitt. Skoðaðar verða ólíkar birtingarmyndir sauðfjárbænda í fjölmiðlum og ímynd þeirra en sérstök áhersla skal vera á hlutverk kvenna innan greinarinnar og kynjaða orðræðu.

Styrkurinn verður veittur einstaklingi og nemur hann 150.000 kr. Styrkur er greiddur út í tvennu lagi, 50.000 kr. þegar þriðjungi vinnunar er lokið að mati leiðbeinenda og 100.000 kr. þegar verkefni er lokið. Styrkveitendur munu aðstoða rannsakanda við aðgang að gögnum en verkefni skal ljúka eigi síðar en að vori 2018. Styrkveitendur fá kynningu á niðurstöðum auk eintaks af rannsókninni.

Í styrkumsókn (200-500 orð) skal setja fram sýn rannsakanda á inntak rannsóknar, með hvaða hætti viðkomandi hyggst greina gögn ásamt tímaáætlun um framvindu. Umsókn skal fylgja ferilskrá umsækjanda, yfirlit um námsframvindu og samþykki leiðbeinanda fyrir rannsókninni sem lokaverkefni.

Þrír aðilar sitja í valnefnd, Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands og Erla Hlín Hjálmarsdóttir, rannsóknastjóri Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Nefndin skal við val á styrkþegum leggja mat á nálgun og hæfni umsækjanda til að vinna rannsóknina.

Umsóknarfrestur er til og með 15. september 2017. Umsókn skal senda til Kristínar I. Pálsdóttur, verkefnisstjóra RIKK á rikk@hi.is, sem einnig veitir nánari upplýsingar um verkefnið.