Fimmtudaginn 28. apríl flytur Annadís G. Rúdólfsdóttir, námsstjóri Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands og doktor í félagssálfræði, fyrirlesturinn: „‘… eða ertu bara svona ánægður að sjá mig? ; )‘ Tekist á við póst-feminíska tvíræðni neyslumenningarinnar“. Fyrirlesturinn verður haldinn í Öskju, stofu 132, kl. 12.00-13.00.
Því hefur verið haldið fram að póst-feminískar birtingarmyndir kvenleikans séu afurðir nýfrjálshyggju og neyslumenningar. Í erindinu verður stuttlega gerð grein fyrir gagnrýni feminísku fræðikvennanna Gill (2007) og McRobbie (2009) á þessum kvenímyndum og tvíbentri afstöðu þessara birtingarmynda kvenleikans til feminismans. En hvernig lesa „venjulegar“ konur í þessar myndir og hvaða áhrif hefur feminísk hugmyndafræði á þeirra afstöðu? Fjallað verður um hvers konar „rými“ konur finna til að gagnrýna þessar kvenímyndir eða hvort slíkt rými er að finna. Stuðst verður m.a. við rannsóknir og greiningu Helenar Malson, Emmu Halliwell, Irmgard Tischner og Önnudísar Rúdólfsdóttur (í prentun).
Öll velkomin!