Jón Gnarr, borgarstjóri, og Kristín Ingólfsdóttir, háskólarektor, undirrituðu samning um áframhaldandi samstarf Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um jafnréttisrannsóknir þriðjudaginn 15. maí síðastliðinn. Samningurinn er gerður í framhaldi af farsælu samstarfi borgarinnar og RIKK frá árinu 2000, en þá var fyrsti samstarfssamningur borgarinnar og Háskólans gerður um kynja- og jafnréttisrannsóknir. Fyrir hönd Háskóla Íslands er Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum (RIKK) ábyrg fyrir framkvæmd samningsins, en mannréttindaskrifstofa fyrir hönd Reykjavíkurborgar.
Markmið samstarfsins er að stuðla að auknum jafnréttisrannsóknum og miðlun fræðilegrar þekkingar með áframhaldandi rannsóknum og fræðslu á sviði jafnréttisfræða. Markmiðinu skal ná með rannsóknum, með umsóknum og þátttöku í innlendum, norrænum og evrópskum rannsóknaráætlunum, með því að hvetja til jafnréttisrannsókna meðal vísindamanna og framhaldsnema við Háskóla Íslands og innan íslensks fræðasamfélags og með því að efna til útgáfu og margs konar funda og fræðslu á sviði jafnréttis.
Verkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg eru ákvörðuð af samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Sérstök áhersla á samningstímabilinu verður lögð á verkefni sem þróuð eru með hliðsjón af mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Má þar m.a. nefna úttekt á reynslunni af mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og greiningu á áhrifum efnahagsþrenginga á mannréttinda- og jafnréttisstarf á Íslandi. Einnig verður sjónum beint að samstarfsverkefnum sem lúta að jafnréttismálum í tengslum við kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð, og menningarmál almennt, auk þess sem reynt verður að nýta þau tækifæri sem myndast hafa með hlutverki Reykjavíkur sem bókmenntaborgar UNESCO. RIKK mun huga að þeim þverfræðilegum rannsóknarmöguleikum sem felast í ofangreindum viðfangsefnum í innlendu og erlendu samhengi.