Fjórtán nemendur voru brautskráðir úr Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Öskju, náttúrufræðahúsi háskólans, fimmtudaginn 22. maí. Lokaverkefni nemenda snúa að ýmsum hliðum jafnréttismála í heimalandi þeirra, þar á meðal kynbundnu ofbeldi, kennslu í kynjafræði og kynjaðri fjárlagagerð.
Þetta var í sjötta sinn sem nemendur eru brautskráðir frá Jafnréttisskóla HSþ en hann hefur starfað frá árinu 2009. Í upphafi var um að ræða tilraunaverkefni í samstarfi Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins en skólinn varð í fyrra formlegur hluti af tengslaneti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur að markmiði að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, sem starfa að jafnréttismálum, þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Líkt og Jarðhita-, Sjávarútvegs- og Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er Jafnréttisskólinn liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
Sem fyrr segir brautskráðust 14 nemendur frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum í ár, sex karlar og átta konur frá Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu.
Irma Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisskóla HSþ, setti brautskráningarathöfnina og ávörp fluttu, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis. Ástráður Eysteinsson, sviðsforseti Hugvísindasviðs, og Annadís G. Rúdólfsdóttir, námsstjóri Alþjóðlega jafnréttisskólans, sögðu síðan frá starfsemi skólans og Hellen Nansikombi, nemandi frá Úganda, deildi upplifun nemenda af náminu og dvölinni á Íslandi.
Þá voru veitt sérstök verðlaun sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og verndara Jafnréttisskólans, en þau hlaut Laureen Karayi fyrir verkefnið „A sexual and reproductive health and rights issue in Uganda: The situation of maternal health“.
Þess má geta að í útskriftarhópnum í ár eru tveir sérfræðingar frá Lilongwe University of Agriculture and Natural Resources (LUANAR) í Malaví, þau Yananda Madhlopa og Emmanuel Likoya. Þau hlutu styrk til námsins frá norska sendiráðinu í Lilongwe. Í lokaverkefnum sínum bjuggu þau til námsskrá fyrir kynjafræðinám í LUANAR-háskóla og fjölluðum um hvernig samþætta mætti kynjasjónamið inn í rannsóknir á loftslagsbreytingum. Vonast er til að brautskráning þeirra verði vísir að frekara samstarfi milli Jafnréttisskólans, og þar með Háskóla Íslands, og LUANAR-háskóla.
Upplýsingar um lokaverkefni útskriftarnemanna má fá á heimasíðu Alþjóðlega jafnréttisskólans https://gest.hi.is/?p=1427#more-1427.
Með brautskráningunni nú hafa alls 43 brauðskráðst frá Jafnréttisskólanum HSþ frá upphafi.