Þriðja kynið – í trúarbrögðum og menningu

solannawp1Föstudaginn 21. febrúar flytur Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði við HÍ, fyrirlestur sem ber heitið „Þriðja kynið – í trúarbrögðum og menningu“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Fyrsta nóvember 2013 varð Þýskaland fyrst Evrópulanda til að viðurkenna þriðja kynið en sú lagasetning heimilar að ekki þurfi að taka ákvörðun um kyn svokallaðra inter-sex einstaklinga við fæðingu heldur megi bíða með það þar til viðkomandi einstaklingur getur ákveðið það sjálfur síðar. Sumir hafa túlkað þessi nýju lög þannig að inter-sex einstaklingur getur valið karlkyn, kvenkyn eða þriðja kyn á meðan aðrir telja þá túlkun of víða. Í fyrirlestrinum verða þýsku lögin rædd og tengd læknisfræðilegri, kynjafræðilegri, trúarbragðafræðilegri og hinsegin orðræðu um kynferði, kyngervi og kynvitund. Að lokum verður þeirri spurningu varpað fram hvort tímabært sé að fleiri lönd, t.d. Ísland, feti í fótspor Þjóðverja og viðurkenni þriðja kynið.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.

Öll velkomin!