Fimmtudaginn 15. september heldur Hrönn Brynjarsdóttir, doktorsnemi í  tölvunar- og upplýsingafræði við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum, fyrirlestur er nefnist „‘Þetta er ótrúleg stærðfræði og þetta versnar bara!‘ Upplýsingatækni og sjálfbærni í íslenskum sjávarútvegi“. Fyrirlesturinn verður haldinn á Háskólatorgi, stofu 102, kl. 12.00-13.00.

Í erindi sínu mun Hrönn fjalla um doktorsverkefni sitt er lýtur að upplýsingatækni og auðlindastjórnun í fiskiðnaði hér á landi og skoða sérstaklega samspil menningar, hagfræði og annarra samfélagslegra þátta í því samhengi. Starfsgreinar sjávarútvegsins hafa gjörbreyst á undanförnum áratugum, en þar hafa framfarir í upplýsingatækni spilað stórt hlutverk. Þessum framförum hafa fylgt ýmsir jákvæðir þættir, eins og aukið öryggi sjómanna; auknir samskiptamöguleikar á milli áhafnar og fjölskyldu og vina í landi; og betri tækjabúnaður hefur leitt til þess að íslenski skipaflotinn er mun afkastameiri en áður og hið sama gildir um framleiðslu í landi.

Á hinn bóginn þarf einnig að taka tillit til neikvæðra þátta á borð við ofveiði og loftslagsbreytingar. Einstaklingar í þessari starfsgrein eru í þeirri erfiðu aðstöðu að taka þátt í því að ganga markvisst á afurðirnar sem tryggja afkomu þeirra sjálfra til lengri tíma. Í þessu samhengi mun Hrönn einnig fjalla um viðhorf og upplifun kvenna og karla sem starfa í íslenskum sjávarútvegi til starfsgreinarinnar, en raddir kvenna hafa ekki heyrst sem skyldi í umræðunni um kvótakerfið og nýju upplýsingatæknina.

Öll velkomin!