Í síðustu viku skrifaði Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, og Kristín Ingólfsdóttir, Rektor HÍ, undir nýjan samstarfssamnings um jafnréttisrannsóknir sem RIKK mun hafa umsjón með fyrir hönd Háskóla Íslands. Samningurinn er gerður í framhaldi af farsælu samstarfi borgarinnar og RIKK frá árinu 2000, en þá var fyrsti samstarfssamningur borgarinnar og Háskólans gerður um kynja- og jafnréttisrannsóknir.

Samstarf borgarinnar við RIKK mun á næstu tveimur árum lúta að ýmsum verkefnum sem Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á í mannréttindastarfi sínu, eins og til dæmis launamun kynjanna. Einnig verður lögð áhersla á samstarfsverkefni sem tengjast jafnréttismálum í tengslum við menningu og menningarpólitík, umhverfismál og umhverfisvitund, lífsgæði, fjölmenningu og borgarsamfélagið, auk þess sem reynt verður að nýta þau tækifæri sem myndast hafa með nýju hlutverki Reykjavíkur sem bókmenntaborgar UNESCO. Þá verður litið til samstarfs við Alþjóðlegan jafnréttisskóla og EDDU – öndvegissetur — sem starfa náið með RIKK og sem eru dæmi um árangurinn af þeim samningi sem nú hefur verið endurnýjaður.

RIKK tók til starfa sem Rannsóknastofa í kvennafræðum í lok ágúst 1991.  RIKK hafði um árabil takmarkaða fjárveitingu og gat af þeim sökum aðeins haft starfsmann í hlutastarfi. Stofnunin hélt úti dagskrá á hverjum vetri sem samanstóð af hádegisfyrirlestrum, opinberum fyrirlestrum og málstofum, auk útgáfu rita á sviði kvenna- og kynjafræða. Hinn 26. júní 2000 urðu þáttaskil í starfi stofunnar þegar þau Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, undirrituðu samstarfssamning Háskólans og Reykjavíkurborgar. Markmið hans var að efla rannsóknir á sviði kvenna- og kynjafræða innan Háskólans. Samningurinn gerði stofunni kleift að ráða forstöðumann í fullt starf, en Reykjavíkurborg skuldbatt sig til að greiða helming kostnaðar við stöðuna til þriggja ára á móti Háskólanum. Samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands var síðan endurnýjaður til fjögurra ára 3. október 2003. Hinn 8. nóvember 2007 undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, samning um áframhaldandi samstarf til fjögurra ára.