Fimmtudaginn 10. nóvember flytur Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, hádegisfyrirlestur á vegum RIKK sem kallast „Þjáning, andóf og eftirbreytni. Að túlka krossinn í ljósi reynslu kvenna“. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 102 á Háskólatorgi kl. 12:00-13:00.

Krossinn er lykiltákn í kristinni trú og vísar til þess að Guð hafi í Jesú Kristi gengið inn í veruleika þjáningar og dauða.  Auður kross vísar til upprisunnar sem tjáir kjarna kristins boðskapar, þ.e. að þjáningin og dauðinn eigi ekki síðasta orðið. Sé krossinn túlkaður í ljósi reynslu kvenna þá tjáir hann samsemd Krists með konum, sem m.a. þjást vegna þess að þær hafa orðið fyrir barsmíðum, nauðgun eða öðru ofbeldi. Stundum er þessi samsemd túlkuð með því að sýna Krist í kvenlíkama á krossinum. Svokallaðar Kristu-myndir eru dæmi um skapandi endurskoðun á túlkun og hlutverki krossins.

Í kristinni trúarhefð hefur krossinn oft verið notaður til að letja fólk til þess að rísa upp gegn óréttlæti sem það verður fyrir. Gegn slíkri misnotkun hefur krossinum verið stillt upp sem tákni um kenosis (tæmingu) feðraveldisins, sem kallar eftir kúvendingu á skilningi okkar á valdi og karlmennsku. Þannig er það vald sem opinberast okkur á krossinum ekki vald í hefðbundnum skilningi, heldur andstæða þess. Í stað drottnandi valds birtist vald kærleikans í krossinum. Guð sem birtist okkur í Kristi á krossinum er ekki sterkur samkvæmt mælikvörðum feðraveldisins og hið sama má segja um karlmennsku Krists. Krista á krossinum nær að túlka vel þennan viðsnúning væntinga okkar sem krossinn opinberar, þegar hið veika sigrar hið sterka, bölvun umbreytist í blessun og dauðinn lýtur að lokum í lægra haldið fyrir lífinu.