Fimmtudaginn 27. október kl. 12:00-13:00 heldur Jón Ólafsson, prófessor og aðstoðarrektor við Háskólann á Bifröst, fyrirlesturinn Appelsínur frá Abkhasíu: Lífið í kvennagúlaginu 1938-1943 í stofu 102 á Háskólatorgi.

Nafn Veru Hertzsch, þýskrar konu sem handtekin var að Halldóri Laxness viðstöddum í Moskvu 1938, var alþekkt hér á landi eftir útkomu endurminningabókar Halldórs, Skáldatíma, árið 1963. Örlög hennar, sem Laxness lýsir að hluta í stuttum kafla í bókinni, gerðu að verkum að margir töldu jafnvel að hún hefði haft mikilvægu hlutverki að gegna. Í spjallinu verður samhengi handtöku hennar og örlaga rakið og fjallað um hópinn sem hún tilheyrði, en það voru „eiginkonur föðurlandssvikara“ sem voru handteknar þúsundum saman á árunum 1937 til 1938 og sendar til starfa á saumastofum Gúlagsins í Mordóvíu og Kazakhstan.