Kvennafrídagurinn 24. október 2005

Tæplega 50 þúsund konur og þó nokkrir karlar mótmæltu ójafnrétti kynjanna og þeim mannréttindabrotum sem felast í launamismun kynjanna með því að ganga kröfugöngu frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg þar sem haldinn var fjölmennasti útifundur Íslandssögunnar. Gríðarleg stemning var í göngunni og höfðu margar konur með sér potta, járnsleifar og ýmis konar áhöld til þess að hafa hátt – í merkingunni um háværa kröfu um jafnrétti. Fjöldi kvenna hafði með sér kröfuspjöld og fána sem gerði gönguna einstaklega litríka og áhrifamikla. Þegar komið var niður á Ingólfstorg var haldinn baráttufundur þar sem fluttar voru barátturæður, leikþáttur og gjörningur og sungnir voru baráttusöngvar.

Markmið kvennafrísins er það sama og fyrir 30 árum, að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf. Hvergi í heiminum er atvinnuþátttaka kvenna jafnmikil og hér á landi. Þessi gríðarlega þátttaka kvenna og hávær krafa þeirra um jafnrétti eru skýr skilaboð til íslensks samfélags að konur ætla ekki að láta bjóða sér að vera annars flokks þegnar í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Konur þora, vilja og geta!

Þau samtök sem áttu aðild að því að undirbúa Kvennafrídaginn voru: Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennasögusafn Íslands, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót og UNIFEM á Íslandi. Kvennafundurinn á Þingvöllum 19. júní var afrakstur þessa samstarfs. Heildarsamtök launamanna koma einnig að undirbúningi kvennafrídagsins 24. október. Þau eru: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.