Svanur Kristjánsson: Leið Íslands til lýðræðis: Frá kvenfrelsi og frjálslyndi til feðraveldis

Í upphafi erindis eru raktar kenningar erlendra og innlendra fræðimanna um lýðræðisbylgjur, hvernig lýðræði eflist á sumum tímum en veikist á öðrum. Einnig virðist lýðræði gjarnan byggjast upp á löngum tíma, vaxa úr grasrótinni en hnignun lýðræðis, jafnvel hrun, gerist yfirleitt snöggt. Ekki er enn vel útskýrt hvað veldur lýðræðisbylgjum. Fyrirlesari hefur um árabil rannsakað leið Íslands til lýðræðis og birt niðurstöður í bókum og fræðigreinum á innlendum og erlendum vettvangi. Í þessu erindi er sjónum beint að þróun frjálslyndis og kvenfrelsis á Íslandi undir lok 19. aldar fram að stjórnarskrá 1915, þegar konur fengu skilyrtan kosningarétt í kosningum til Alþingis. Athygli verður sérstaklega beint að afstöðu íslenskra valdakarla, hvernig og hvers vegna þeir snéru skyndilega baki við fyrri hugmyndum um frjálslyndi og kvenfrelsi en héldu á lendur feðraveldis, fyrirgreiðslustjórnmála, flokkavalds, fulltrúalýðræðis og þingstjórnar. Þar er ekkert rými fyrir kvenfrelsi – eða konur yfirleitt. Í lok erindis er spurt: Hefur þetta eitthvað breyst – á tæpum 100 árum?

Erla Hulda Halldórsdóttir: Kvennaskólar 19. aldar: Rými andófs og samsemdar

Kvennaskólarnir íslensku sem stofnaðir voru á síðari hluta 19. aldar voru í senn vettvangur íhaldssemi og nýjunga. Markmið skólanna var fyrst og fremst að gera konur hæfari til þess að takast á við hlutverk móður og húsmóður en af heimildum er ljóst að skólarnir opnuðu augu margra kvenna fyrir möguleikum menntunar og framfara og ýttu þannig undir andóf þeirra gegn ríkjandi gildum samfélagsins. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að kvennaskólunum sem rými andófs og samsemdar.

Kristín Ástgeirsdóttir: Þrjár konur á þingi. Velkomnar eða óvelkomnar?

Á tímabilinu 1922-1949 sátu aðeins þrjár konur á Alþingi, þær Ingibjörg H. Bjarnason, Guðrún Lárusdóttir og Katrín Thoroddsen. Þær komu hver úr sinni áttinni og tilheyrðu mismunandi straumum innan kvennahreyfingarinnar. Ingibjörg var skólastýra og bauð sig upphaflega fram fyrir kvennalista. Guðrún var rithöfundur og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins en gaf út sína eigin stefnuskrá. Katrín var læknir og þingkona Sósíalistaflokksins. Þegar horft er á þau málefni sem þær beittu sér fyrir og reynslu þeirra af því að sitja á þingi er ótrúlega margt líkt með þeim en einnig mjög ólíkar áherslur, sem m.a. byggðust á trúarsannfæringu. Valdakerfið var ekki reiðubúið til að opna dyr sínar fyrir konum. Í fyrirlestrinum verður þingferill þessara þriggja kvenna borinn saman og settur í fræðilegt samhengi.

Salvör Nordal: Einkalífið opinberað

Í nútíma stjórnspeki leikur greinarmunurinn milli opinbers sviðs og einkasviðs mikilvægt hlutverk. Þetta birtist meðal annars í frjálslyndri stjórnspeki sem leggur áherslu á að skapa fólki svigrúm fyrir friðhelgi einkalífsins án afskipta ríkisvaldsins og feminismi sem hefur harðlega gagnrýnt hefðbundnar hugmyndir um einkalífið, einkum fjölskylduna. Thomas Nagel, sem er í hópi frjálslyndrar stjórnspeki, hefur varið mikilvægi friðhelgis og gagnrýnt samtíma okkar fyrir að ganga nærri einkalífi fólks. Gagnrýni Nagels er á margan hátt athyglisverð en við nánari skoðun má sjá að hún byggir á misvísandi hugmyndum um einkasviðið og opinbert svið. Í raun má segja að þetta stafi af of einfaldri mynd af greinarmuninum og sé einkennandi fyrir frjálslynda stjórnspeki. Í framhaldinu verður þeirri spurningu velt upp hvort hin þrískipta kenning Hönnu Arendt ráði betur við vandann.

Marion Lerner: Pétur frændi og systur hans. Íslensk ferðafélög á fyrra hluta 20. aldar og þátttaka kvenna í þeim

Árið 1927 var Ferðafélag Íslands stofnað og árið 1939 litu Fjallamenn og Bandalag íslenskra farfugla dagsins ljós. Í erindinu verður fjallað um þátttöku kvenna í starfi þessara samtaka og varpað fram spurningum á borð við: Áttu konur að vera gerendur í þessum félögum? Var gerður greinarmunur á þátttöku þeirra og karlmannanna? Hvaða störf tóku konur að sér ef þær yfirleitt tóku þátt í félagsstarfinu? Áttu stúlkur að klifra fjöll? Þar að auki verður reynt að komast að því hvernig starfsemi ferðasamtakanna var túlkuð á táknrænan hátt. Var starfsemi þeirra á einhvern hátt bundin kyngervi? Og ef svo var, hvernig er þá hægt að túlka þessi viðhorf í dag?