Málstofa XII – Jafnrétti margbreytileikans

Þorgerður Þorvaldsdóttir: Íslenskar kvennahreyfingar og margbreytileiki

Útgangspunktur erindisins er afstaða kvennahreyfinga/minnihlutahópa til jafnréttishugtaksins, nú þegar opinber jafnréttisstefna snýst í auknum mæli um „jafnrétti margbreytileikans.“ Horft verður á tengslin á milli íslenskra kvennahreyfinga og minnihlutahópa í samfélaginu. Hvernig hefur íslenskum kvennahreyfingum tekist að ná utan um margbreytileika kvenna og hvaða vandamál hafa komið upp í þeirri viðleitni. Þá verður spurt um afstöðu fólks úr minnihlutahópum til kvennahreyfingarinnar, en í viðtölum sem byggt er á birtast kvennahreyfingar fyrr og nú bæði sem fyrirmynd í baráttunni fyrir jafnréttari heimi – og sem andstæðingur eða keppinautur þar sem ólíkir samfélagshópar takast á um takamörkuð gæði. Rannsóknin byggir á opnum viðtölum við fólk sem tengist íslenskri jafnréttisumræðu, þ.e. jafnréttisfulltrúum, fulltrúum ólíkra kvennahreyfinga, og fulltrúum þeirra minnihlutahópa sem rætt er um í tengslum við “útvíkkun”. Unnið er út frá femínískum kenningum um intersectionality en hugtakið er notað til að skoða hvernig félags- og menningarbundin valdamismunun, sem verður til í kringum breytur eins og kyn, þjóðerni, kynþátt, kynhneigð, fötlun, aldur og stétt, samtvinnast og móta hverja aðra.

Björg Hjartardóttir: ‘Þjófur í rými karlmanna’ – hugleiðing um birtingarmyndir múslimskra kvenna

Umræða á vesturlöndum um islam og þau samfélög sem þá trú iðka hefur á undanförnum árum kjarnast í ákveðinni tvíhyggju þar sem stillt er upp andstæðum tveggja heima, hins ‘vestræna’ og hins ‘islamska’, líkt og um ótengda og andstæða póla sé að ræða. Innan þessarar orðræðu hafa konur ákveðnu hlutverki að gegna þar sem oft er gert ráð fyrir að kúgun kvenna sé innbyggð í islamska trú og samfélög iðkennda hennar. Birtingarmyndir af múslimskum konum á Vesturlöndum draga því oft upp ákveðna mynd af þeim sem hópi kvenna án gerandahæfni og gegnir blæjan þar lykilhlutverki, en fyrir marga er hún táknmynd fyrir slæma stöðu kvenna innan islam. Efni þessa erindis er ætlað að vera hugleiðing um birtingarmyndir múslimskra kvenna í nokkrum heimildarmyndum um konur í Afganistan, og öðrum löndum þar sem múslimar eru í meirihluta, en myndirnar eiga það sameiginlegt að vera gerðar af konum með múslimskan uppruna. Lögð verður áhersla á að skoða hvaða hlutverki blæjan gegnir í myndunum, sem tákn islam og múslimskra kvenna, og leitast verður við að svara þeirri spurningu hvort skoða megi blæjuna sem tákn með víðari og dýpri merkingu en þeirri sem birtir hana einungis sem tæki kúgunar og frelsisskerðingar múslimskra kvenna.

Kristín Björnsdóttir og Rannveig Traustadóttir: Kyn, fötlun og trúarþátttaka

Erindið fjallar um rannsókn á trúarþátttöku ungs fólks með þroskahömlun. Viðfangsefnið verður sett í samhengi við feminískar hugmyndir um kyngervi og samtvinningu (intersectionality), og athyglinni beint að samspili kyns og fötlunar í trúarþátttöku ungs fólks með þroskahömlun. Rannsóknin byggir á viðtölum við lítinn hóp kirkjurækinna einstaklinga með þroskahömlun á aldrinum 20 – 30 ára og þátttökuathugunum í fjölbreyttu kirkjustarfi. Niðurstöður benda til þess að þátttaka fólks með þroskahömlun í trúarathöfnum felist fyrst og fremst í sérsniðnu kirkjustarfi sem einvörðungu er ætlað fötluðu fólki og fer fram aðgreint frá öðru starfi kirkjunnar. Um er að ræða kirkjustarf sem líkist einna helst barnastarfi, en er þó ætlað fullorðnu fólki með þroskahömlun. Barnsgering kirkjunnar á fötluðum einstaklingum gerir þeim erfitt að vera álitin kynverur og öðlast stöðu sem fullorðnar konur og karlar. Fullorðið fólk með þroskahömlun syngur enn barnasönginn um Daníel og Rut á meðan jafnaldrar þeirra eiga kost á fjölþættu félagsstarfi innan kirkjunnar, svo sem kóra- og tónlistarstarfi. Sá samastaður sem ungt fólk með þroskahömlun finnur í samfélagi kristinna og þátttaka þeirra í trúarlífi virðist því eiga sinn þátt í að ýta þeim út á jaðar samfélagsins. Í fyrirlestrinum verður rakið með hvaða hætti þetta gerist í lífi þeirra einstaklinga sem tóku þátt í rannsókninni. Jafnframt er rýnt í hvernig þetta tengist kristnum hugmyndum um kyngervi, hefðum, boðum og bönnum kirkjunnar og valdakerfi hennar sem trúarstofnunnar.

Paola Cardenas: Erlendar konur á Íslandi. Reynsla þeirra af skilnaði eða sambúðarslitum frá sálfræðilegu sjónarhorni

Rannsóknin byggist á reynslu erlendra kvenna af skilnaði og sambúðarslitum á Íslandi. Hún er byggð á upplýsingum fengnum í gegnum viðtöl við 60 konur frá 32 löndum sem hafa gengið í gegnum skilnað eða sambúðarslit á árunum 2000 til 2006. Skoðað var hvaða þjónusta er í boði fyrir þennan hóp kvenna og hvort þær hafi fengið einhvers konar sálfræði-, lögfræði- eða félagslega þjónustu sem var viðunandi til að auðvelda þeim ferlið við skilnaðinn. Að auki var skoðað hvort þessi hópur er vel upplýstur um eigin réttindi í sambandi við skilnað og sambúðarslit og hvort þær hafi fengið almennar upplýsingar til að auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi.

Rannveig Traustadóttir og Sigríður Einarsdóttir: Fjölmenningarlegar fjölskyldur: Hvernig semja íslenskir karlar og erlendar konur um kynferði og jafnrétti?

Erindið byggir á rannsókn um fjölmenningarlegar fjölskyldur og fjallar um það hvernig innflytjendakonur og íslenskir eiginmenn þeirra semja um kynferði og jafnrétti í sínu daglega lífi og “skapa” sig sem par. Greinin byggir á ítarlegum viðtölum við þrjú pör. Notuð var orðræðugreining til að rýna í tal paranna meðal annars til að skilja hvort og hvernig þau tengja sig ríkjandi menningarlegum gildum og ráðandi orðræðu um kynferði og jafnrétti á Íslandi. Hvernig blasir hin opinbera jafnréttisorðræða um kyn og jafnrétti (kynjanna) á Íslandi við fjölmenningarlegum pörum? Taka þau hana til sín og nota hana sem viðmið og hvernig tengist hún menningarbundnum hugmyndum úr upprunamenningu innflytjendakvennanna? Í erindinu verður leitast við að svara þessum spurningum. Jafnframt verður rýnt í ólíkan skilning á jafnrétti og fjallað um hvernig þjóðernisuppruni, kyn, vald og stéttarstaða samtvinnast í daglegu lífi paranna.

Kristín Loftsdóttir: Hjörtun tvö: Nýlendudraumar, kynþáttahyggja og íslenskt þjóðerni

Fræðimenn hafa í auknum mæli skoðað hvítan litarhátt í samhengi við kyn og kynþáttafordóma, því eins og Nirmal Puwar bendir á, hefur líkami hvítra karlmanna staðið sem hinn venjulegi líkami sem þarf hvorki kyn né litarhátt til að skilgreina sig út frá og í því felst valdastaða hans. Í fyrirlestrinum verða skoðuð tvö ljóð, annað eftir Davíð Stefánsson og hitt eftir Tómas Guðmundsson og fjallað um þær kynjuðu birtingamyndir kynþáttahyggju sem lesa má úr ljóðunum. Umfjöllunin verður sett í samhengi við íslenskt samfélag og sjálfsmynd en jafnframt samtíma viðhorf til kynþáttahyggju og fordóma í garð annarra hópa. Reynt verður að draga fram þverstæður í ímyndum kynþáttahyggju og hvernig þær geta sveiflast milli samkenndar og staðalmynda.