Málstofa XI – Starfsval karla og kvenna

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir: Virði kvennastarfa

Í erindinu verður greint frá nýrri rannsókn á því hvernig unglingar og ungmenni skynja störfin í samfélaginu. Gagna var safnað í tveimur aldurshópum ungs fólks (15-16 ára og 19-22 ára). Niðurstöður sýna að í báðum hópunum bera drengir og ungir karlar minni virðingu fyrir kvennastörfum en stúlkur og ungar konur. Rætt verður um að hvaða marki þessar niðurstöður varpa ljósi á yfirráð karla í samfélaginu og kynbundinn launamun.

Herdís Sveinsdóttir og Katrín Klara Þorleifsdóttir: Afl ímyndarinnar: Um fjölþætta ímynd hjúkrunarfræði og áhrif á nýliðun í hjúkrunarstétt

Fræðileg umræða um hjúkrun, hjúkrunarstarf og ímynd hjúkrunarfræðinga hefur verið talsverð á undanförnum árum. Hjúkrunarfræðingar njóta almennt mikils traust og virðingar samkvæmt könnunum sem mæla þá þætti hjá mismunandi starfsstéttum. Þrátt fyrir það virðist nýliðun í hjúkrunarstétt ekki mæta þörf fyrir hjúkrunarfræðinga og standa flest vestræn lönd frammi fyrir núverandi og yfirvofandi skorti á hjúkrunarfræðingum til starfa. Í erindinu verður fjallað um togstreitu starfa og hugmyndafræði hjúkrunar sem er nokkuð áberandi og sem tengist því hvernig hjúkrunarstéttin hefur fjallað um starf sitt sem tilfinningavinnu og skilgreint sig sem umhyggjustéttina. Fjallað verður um rannsóknir breska hjúkrunarfræðingsins Davinu Allen sem hefur skoðað hvernig skipulag hjúkrunar samrýmist hugmyndum um hjúkrun sem tilfinningavinnu og hefur leitast við að greina hvort það sem hjúkrunarsamfélagið hefur á undanförnum árum reynt að skilgreina sem inntak hjúkrunar standi í raun í vegi fyrir þróun hjúkrunar í nútímasamfélagi. Allen hefur áhuga á misræminu milli rannsókna á störfum hjúkrunarfræðinga og þess sem fræðin telja að hjúkrun snúist um. Hún spyr hvort sú vinna sem hjúkrunarfræðingar inna af hendi í nútímaheilbrigðiskerfi og mótuð er af staðsetningu þeirra í kerfinu sé í mótsögn við eðli og markmið fræðigreinarinnar sem birtast í áherslu á góðum tengslum við einstaka sjúklinga.

Jafnframt verður fjallað um hugmyndir bandarísku fræðikvennanna Suzanne Gordon og Siobahn Nelson. Þær fjalla m.a. um að umræða hjúkrunarfræðinga um starf sitt hafi staðnað við ímyndir sem sköpuðust á 19. öld og stéttin verði að rífa umræðuna um sig inn í 21. öldina. Hæfileikaríkt ungt fólk sjái hjúkrun jafnvel ekki fyrir sér sem ævistarf sökum óljósrar ímyndar um persónulega eða siðferðilega eiginleika sem hjúkrunarfræðingar verði að búa yfir. Þær stöllur fjalla um þær ógöngur sem þær telja hjúkrun hafa ratað í vegna þess að í allri orðræðu um heildræna hjúkrun hafi hjúkrunarfræðingar í raun komið fram með nýja tegund smættunar og þröngrar túlkunar (e. cartesianism and reductionism). Í stað þess að raunverulega flétta saman hug og hönd, hið líkamlega og hið andlega, hið tæknilega og læknisfræðilega þá hætti hjúkrunarfræðingum til að setja hið tæknilega og hið læknisfræðilega upp sem andstæðu umhyggju, tilfinninga og tengsla. Hjúkrunarfræðingar tala ekki um og gera jafnvel lítið úr hinum tæknilega og læknisfræðilega hluta starfs síns sem sé ekki síður mikilvægur en sá hluti starfsins sem snýr að umhyggju, tilfinningum og tengslum. Hjúkrunarfræðingum hafi ekki tekist að færa umhyggjuumræðuna úr 19. aldar farvegi og samþætta nútímanum.

Að lokum verður kynnt greining á lýsingum íslenskra hjúkrunarfræðinga á starfi sínu en þær lýsingar voru birtar á heimasíðu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 2002 í tengslum við ímyndarátak félagsins.

Steinunn Helga Lárusdóttir: Leiðtogar og lífsgildi – Rannsókn meðal íslenskra skólastjóra

Konur eru nú tæplega helmingur skólastjóra við íslenska grunnskóla og hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum. Þessar konur eru flestar að taka við skólastjórastöðum af karlmönnum sem hafa mótað hlutverk skólastjóra frá upphafi. Jafnhliða þessari fjölgun kvenna í stéttinni hefur hlutverk skólastjóra á Íslandi, og víðar um heim, verið að breytast. Karllægar áherslur þessara breytinga í anda ný-frjálshyggju, endurspeglast í ríkjandi orðræðu um menntastjórnun og gefa til kynna annan gildagrunn en þann sem verið hefur. Þekking á gildum er sérstaklega mikilvæg á tímum breytinga. Slík innsýn getur vísað skólastjórum veginn í daglegu starfi og hjálpað þeim að skilja hversu kynjuð orðræðan um menntun er og hvaða gildi liggja henni til grundvallar.
Í þessu erindi er sagt frá eigindlegri rannsókn meðal 10 íslenskra skólastjóra. Athyglinni er beint að samspili gilda, kyngervis og athafna við lausn erfiðra mál. Sérstök áhersla er lögð á að skoða áhrif ríkjandi orðræðu um menntastjórnun á athafnir skólastjóra. Niðurstöður sýna að kyngervi hefur margvísleg áhrif á skólastjórana er þeir leitast við að vera milligöngumenn ólíkra gilda meðal hagsmunaðila skóla um leið og þeir standa vörð um sín eigin.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Katrín Tinna Gauksdóttir: „Það er bara munur á hrút og gimbur!“

Í fyrirlestrinum verður fjallað um niðurstöður eigindlegrar rannsóknar sem var gerð á tímabilinu 2004 – 2006 um störf í kjötiðnaði út frá sjónarhóli kynjafræðinnar. Einkum verður fjallað um viðhorf sem koma fram til kynjaskiptingar í greininni og til vinnuframlags kvenna.

Tekin voru tíu viðtöl við karla og konur sem vinna í kjötiðnaði auk þess sem gerðar voru tvær vettvangsathuganir og óformleg viðtöl tekin í tengslum við þær. Niðurstöðurnar eru skoðaðar í ljósi kenninga um orsakir kynjaskipts vinnumarkaðar.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að oft var gripið til eðlishyggju til að skýra hve fáar konur starfa í kjötvinnslu. Útskýringar karla og kvenna voru að hluta til ólíkar. Ástæður sem einkum karlar nefndu voru að starfið væri of líkamlega erfitt og slítandi fyrir konur. Ástæður sem einkum konur nefndu voru karllæg ímynd greinarinnar, lág laun og einhæfni starfsins í kjölfar aukinnar tæknivæðingar. Innan kjötiðnaðarins hefur þróast ákveðin kynjaskipting þar sem konur sem starfa í greininni sinna fremur störfum sem þykja útheimta sérstaka fingrafimi. Í ljós kom að körlum sem rætt var við fannst niðurlægjandi að sinna störfum sem konur hafa fremur sinnt. Það viðhorf viðheldur kynjaskiptingu innan greinarinnar.