Hvar er jafnréttið?

Málþing í Salnum í Kópavogi var haldið þann 17. mars 2004 í tilefni 100 ára afmæli heimastjórnar í samstarfi forsætisráðuneytis, Kvenréttindafélags Íslands og Háskóla Íslands; Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Fjölmenni var á ráðstefnu um réttindabaráttu kvenna. Markmið var annars vegar að að bregða ljósi á stöðu íslenskra kvenna við upphaf heimastjórnar, en á tímabilinu 1904-1918 fengu konur flest þau grundvallarréttindi sem þær höfðu barist fyrir; kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna og Alþingis og rétt til menntunar og embætta. Jafnframt helstu áfanga í réttindabaráttu kvenna síðustu 100 árin. Hins vegar var farið yfir helstu áfanga í réttindabaráttu kvenna frá 1920 til dagsins í dag, fjallað um stöðu kvenna í samtímanum og þess freistað að skilgreina hvað þurfi til þess að fullt jafnrétti náist. Hvað skortir á til að konur nýti að fullu það formlega jafnrétti sem náðst hefur til þess að fullu jafnrétti verði náð?

Barátta kvenna fyrir jafnrétti hefur oft verið skilgreind svo að fyrstu áratugina hafi atorkan beinst að því að breyta lögum og reglum – skapa jöfn tækifæri þannig að konum væru tryggð sömu réttindi og körlum (Heimastjórnartímabilið – fyrsta bylgjan svokallaða um aldamótin 1900). Þegar í ljós kom að það var ekki nóg beindu konur sjónum að sjálfum sér. Þær þyrftu að „breyta sér“ og sækja aukna menntun og völd. Sjónum var beint að samfélagsgerðinni (m.a. Rauðsokkuhreyfingin) en í ljós kom að það reyndist ekki nóg. Á níunda áratug 20. aldar færðist áherslan yfir á hið kvenlega, sérstaka eiginleika og reynsluheim og sérstöðu kvenna sem m.a. birtist í sérframboðum sem voru aðferð til þess að koma konum til valda (Kvennalistinn). Síðustu árin hefur síðan sjónum verið beint að að báðum kynjum og leiða leitað til þess að flétta kynjasjónarhorn inn í alla ákvarðanatöku og umhverfi kvenna (samþætting). Þar er litið svo á að horfa þurfi til allra þátta hins félagslega umhverfis þar sem konur starfa; hefða, vinnubragða, kúltúrs, væntinga samfélagsins o.fl.

Á málþinginu var því spurt: Hvaða félagslegu og huglægu þættir eru það sem standa í vegi fyrir fullri þátttöku íslenskra kvenna á öllum sviðum samfélagsins? Hvað þurfa  stjórnvöld, fyrirtæki, konur sjálfar og karlar að gera frekar?  Hvernig gæti sameiginleg aðgerðaáætlun  litið út?

Flutt voru þrjú framsöguerindi og að þeim loknum voru pallborðsumræður. Í upphafi þingsins flutti Árni Magnússon félagsmálaráðherra ávarp.

Erla Hulda Halldórsdóttir, sagnfræðingur og sérfræðingur hjá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, rakti í sínu erindi sögu kvennabaráttunnar á heimastjórnartímanum, frá 1904-1918.
Lára V. Júlíusdóttir, lektor við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Kvenréttindafélags Íslands, fjallaði um stöðuna í jafnréttisbaráttunni og það sem áunnist hefur síðustu hundrað ár.
Í þriðja og síðasta framsöguerindinu var horft fram á veginn. Birna Anna Björnsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, Hildur Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar, og Hjörtur Magni Jóhannsson, fríkirkjuprestur, fluttu erindi.

Sigríður Árnadóttir, fréttastjóri Stöðvar 2 stýrði pallborðsumræðum. Í pallborði voru Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður, Bjarni Benediktsson, alþingismaður, Hulda Dóra Styrmisdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, Katrín Anna Guðmundsdóttir, talsmaður Feministafélags Íslands, og Þorbjörg Inga Jónsdóttir, hrl. og formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Ráðstefnustjóri var Stefanía K. Karlsdóttir, rektor Tækniháskóla Íslands.

Málþingið var annað af þremur sem haldin eru í tilefni af eitt hundrað ára afmæli heimastjórnar á Íslandi. Hið fyrsta var haldið í byrjun febrúar og fjallaði um samskipti þings og framkvæmdarvalds en hið þriðja og síðasta fjallar um atvinnuþróun frá upphafi heimastjórnar.