Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum stóð fyrir norrænu ráðstefnunni Kvennahreyfingar – Innblástur, íhlutun, irringar dagana 10. – 12. júní 2004 ásamt Kvennasögusafni og NIKK (Nordisk Institut for kvinne- og könnsforskning). Ráðstefnan fjallaði um norrænar kvennahreyfingar og áhrif þeirra á samfélög og menningu Norðurlanda og alþjóðasamfélagsins.

Þetta var ráðstefna fyrir fræðinga, fulltrúa félagasamtaka og stjórnmálafulltrúa svo eitthvað sé nefnt. Fjöldi málstofa var í boði og pallborðsumræður voru haldnar um mál er snerta konur og kvennahreyfingar.

Ein af stærstu málstofunum fjallaði um ofbeldi karla gegn konum sem því miður er ennþá stórt vandamál hér á landi sem erlendis.

Fulltrúar kvennaathvarfa bæði í Noregi og Svíþjóð miðluðu af reynslu sinni og virðist veruleikinn vera sá sami hvar í heiminum sem borið er niður. Heilmiklar umræður voru um tengsl milli kláms, vændis, heimilisofbeldis og mansals. Allt er þetta sprottið af sömu rótum og flokkast undir ofbeldi karla gegn konum. Irene von Wachenfeldt formaður ROKS – samtaka kvennaathvarfa í Svíþjóð greindi frá því að karlar sem beita konur ofbeldi innan veggja heimilisins eru í mörgum tilvikum ötulir neytendur kláms og vændis, þ.e. nýta sér aðstöðumun kynjanna til að beita valdi sínu á ýmsan hátt. Það er því erfitt að beita sér gegn einu formi af kynbundu ofbeldi án þess að sjá samhengi hlutanna og berjast gegn ofbeldi yfir höfuð.

Í Svíþjóð er kvennaathvarf í um það bil öðru hverju bæjarfélagi en athvörfin eru ekki öll með sólarhringsvakt og sum eru aðeins opin nokkrar klukkustundir á dag. Öll byggja þau á sama grunni kvenfrelsishugsjóna og mörg eru enn rekin sem grasrótarsamtök sem treysta á vinnuframlag sjálfboða. Sömu sögu er að segja um kvennaathvörfin í Noregi, en þar eru rekin 50 athvörf. Í Finnlandi eru starfrækt 22 kvennaathvörf en sveitarfélögin eru um 400. Töluvert er um mansal og vændi sérstaklega í norðurhluta Svíþjóðar, Noregs og Finnlands og eru dæmi um skipulagðar rútuferðir með konur yfir landamærin frá Rússlandi sem seldar eru karlmönnum á Norðurlöndum. Svíar hafa náð einna lengst í baráttunni gegn mansali og er því að þakka löggjöfinni sem gerir kaupendur vændis seka í stað þeirra sem selja líkama sinn. Þetta hefur orðið til þess að mansalshringir sniðganga Svíþjóð og er umræða á öllum Norðurlöndum um að fara sænsku leiðina í lagasetningu um vændi.

Meðan ráðstefnan stóð yfir kom út hjá NIKK bókin The Women´s Movements Crossing Borders.

Bæklingur með dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

Bæklingur með lýsingu á ráðstefnunni á ensku og sænsku má finna hér.