Hjúkrunarnám á Íslandi 1922-1930

Fyrsta rabb haustmisseris fer fram fimmtudaginn 19. september kl. 12-13 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands, en þá flytur Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur erindið Hjúkrunarnám á Íslandi 1922-1930.

Skipulagt hjúkrunarnám hófst á Íslandi á þriðja áratug 20. aldar fyrir frumkvæði Félags íslenskra hjúkrunarkvenna. Fyrir þann tíma höfðu yfirlæknar einstakra sjúkrahúsa víðs vegar um landið staðið fyrir stuttum námskeiðum í hjúkrun og allt að rúmlega árs námi. Forystukonur hjúkrunarkvenna settu markið hins vegar mun hærra og ákváðu að bjóða upp á tveggja til þriggja ára nám. Fyrstu tvö árin stunduðu hjúkrunarnemar nám á Íslandi en fóru síðan utan til frekara náms ýmist í Danmörku eða Noregi. fjallað verður um námið hér á landi og sjónum einkum beint að þeim konum sem afréðu að sækjast eftir hjúkrunarnámi. Varpað verður ljósi á uppruna þeirra, bakgrunn og reynt verður að rekja ástæður þeirra fyrir námsvalinu, fengu þær „köllun“ til hjúkrunarstarfa eða vildu þær einfaldlega afla sér starfsréttinda?