Kolbeinn Hólmar Stefánsson er fimmti gesturinn í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2025 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Erindið ber titilinn: „Varanleiki fátæktar á Íslandi 2000 – 2023“. og verður haldið fimmtudaginn 10. apríl á milli kl. 12 og 13 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Kolbeinn er dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Oxfordháskóla árið 2013.
Í erindinu verður fjallað um neðsta lag stéttskiptingar íslensks samfélags. Spurningin sem verður reynt að svara er að hvaða marki fátækt er viðvarandi ástand fyrir þau sem í henni lenda.
Umræða um fátækt byggir gjarnan á upplýsingum úr þversniðsgögnum sem gefa mynd af stöðu mála á tilteknum tímapunkti eða þröngu tímabili. Almennt benda mælingar til þess að lágtekjuhlutföll séu tiltölulega stöðug frá einu ári til annars. Á bakvið þann stöðugleika getur hins vegar verið umtalsverð hreyfing á fólk í og úr fátækt sem þversniðsmælingar fanga ekki. Hvort fátækt er að mestu varandlegt eða tímabundið ástand hefur þýðingu fyrir stefnumótun. Ef fátækt er að mestu tímabundin má færa fyrir því rök að lítil þörf sé á inngripi stjórnvalda þar eð vandamálið leysist að sjálfu sér í flestum tilfellum. Ef fátæktin er viðvarandi ástand kallar það hins vegar á nánari greiningu á hvað veldur og inngripum á grundvelli þeirra ætli stjórnvöld sér á annað borð að draga úr fátækt.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.