Sigrún Ólafsdóttir er fjórði fyrirlesari í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2024 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Titill erindið ber heitir: „Afleiðingar stéttaskiptingar og samtvinnunar: Áhrif auðmagns á heilsu“ og verður haldið á milli kl. 12 og 13 fimmtudaginn 24. október í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Félagsfræðingar hafa löngum haft áhuga á áhrifum stéttaskiptingar á heilsu. Almenna mynstrið er að þau sem eru í viðkvæmari stöðu búa við verra heilsufar en þau sem eru í meiri forréttindastöðu, hvort sem að það er út frá stétt, kynþætti og/eða kyni. Þó að margt sé vitað um samband stöðu og heilsu hafa rannsakendur kallað eftir rannsóknum sem dýpka skilning okkar sambandinu, annars vegar með aukinni áherslu á samtvinnun og hins vegar með nýjum og dýpri mælingum. Við svörum þessu kalli með því að tengja nýjar breytur sem mæla auðmagn úr frá kenningum franska fræðimannsins Bourdieu um efnahagslegt, félagslegt, menningarlegt og táknrænt auðmagn við andlega og líkamlega heilsu Íslendinga. Við skoðum sérstaklega hvort og hvernig þessar mismunandi tegundir auðmagns bæta skilning okkar á sambandi stöðu og heilsu með sérstaklega áherslu á hvernig samtvinnun mismunandi félagslegra þátta hefur áhrif. Niðurstöðurnar sýna að efnahgaslegt, félagslegt og táknrænt auðmagn hafa áhrif á heilsu sem sýnir okkur að jafnvel í því samfélagi þar sem staða fólks er hvað jöfnust, þá skiptir staða fólks í lagskiptingu þjóðfélagsins máli fyrir heilsu og þar skipta máli þættir eins og hverja fólk þekkir, hvernig það metur það vald sem tengist þeirra eigin stöðu og sérstaklega hversu mikinn aðgang að fjármagni það hefur.
Sigrún Ólafsdóttir er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar beina sjónum að heilsu, geðheilsu, stefnumótun og ójöfnuði, þar sem hún hefur meðal annars skoðað hvernig stærri samfélagslegar stofnanir (s.s. velferðarkerfið) hafa áhrif á útkomur og viðhorf einstaklinga.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.