Jón Gunnar Bernburg er þriðji fyrirlesari í hádegisfyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á haustmisseri 2024 en röðin er tileinkuð stéttarhugtakinu, stéttaskiptingu og samtvinnun þar sem stétt er lykilbreyta. Titill erindið ber heitir: „Er hlustað á mig? Auðmagn og táknræn völd einstaklinga“ og verður haldið á milli kl. 12 og 13 fimmtudaginn 10. október í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

 

Í erindinu mun Jón Gunnar kynna rannsóknarverkefni sem leitast við að prófa grundvallaratriði í kenningu Bourdieus um táknrænt vald einstaklinga. Kenning Bourdieus gerir ráð fyrir því að einstaklingar sem eru efnaðir, vel tengdir, hafa háskólagráðu eða sem bara „kunna sig“ hafi tilhneigingu til þess að öðlast upphefð annarra og fá með þeim hætti hljómgrunn fyrir sjónarmið sín. En þótt þessi hugmynd hafi verið áhrifamikil í félagsvísindum hafa fáar rannsóknir prófað réttmæti hennar með kerfisbundum gögnum um einstaklinga. Erindið mun kynna nýlega könnun á fullorðnum Íslendingum (N > 1000) sem gerir okkur kleift að skoða tengsl hagræns, félagslegs og menningarlegs auðmagn við skynjun einstaklinga á táknrænu auðmagni, þ.e. skynjun þeirra á því hvort þjóðfélagsstaða þeirra veiti þeim „rödd“ bæði í almannarýminu og í daglegum samskiptum framsviðsins.

Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans fjalla um margvísleg félagsleg málefni s.s. félagslega lagskiptingu, fjöldamótmæli og frávikshegðun.

 

Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.