Agnes Jónasdóttir er fimmti fyrirlesari hádegisfyrirlestrarraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum á vormisseri 2024 en röðin er tileinkuð samtvinnun. Titill fyrirlestrarins er: „Stúlka er ekki bara stúlka: Samtvinnun í ástandinu.“ Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 12.00 fimmtudaginn 4. apríl í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Í erindinu, sem byggir á meistararitgerð Agnesar og grein sem birtist í vorhefti Sögu árið 2020, verður fjallað um viðbrögð við ástandinu svo kallaða sem varð að umtalsefni í þjóðfélaginu þegar erlendur her steig á land á Íslandi 10. maí 1940. Í forgrunni eru aðgerðir ríkisins til þess að koma í veg fyrir samsktipi íslenskra kvenna og erlendra hermanna auk þess sem varpað verður ljósi á það hvernig umræða fjölmiðla, embættismanna og ríkisins frá upphafi hernámsins og fram að því að ríkið greip til formlegra aðgerða skapaði ákveðna ímynd af stúlkum í hættu en sérstaklega þeirri hættu sem stafaði frá þeim stúlkum. Fjallað verður um hvernig ímyndin af ástandsstúlkunni mótast með umræðunni og hvernig aldur, stétt og kyn fléttaðist saman til þess að gera ákveðnar stúlkur útsettari fyrir afskiptum ríkisins en önnur ungmenni.
Agnes Jónasdóttir er sagnfræðingur og móðir sem starfar á Landsbókasafni Íslands- Háskólabókasafni. Hún lauk BA prófi í sagnfræði með kynjafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2017 og meistaraprófi frá sama skóla árið 2019. Hún hefur fyrst og fremst rannsakað samskipti íslenskra stúlkna og hermanna stríðsárunum og afskipti ríkisins af þeim.
Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK – rikk.hi.is – og Facebook-síðu stofnunarinnar auk þess sem hægt er að skrá sig á tölvupóstlista RIKK hér. Upptaka af fyrirlestrinum verður gerð aðgengileg á heimasíðu RIKK og Youtube. Fyrirlestraröðin er haldin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.