Samfélagslegar hugmyndir um réttlæti í kynferðisbrotamálum taka almennt mið af refsirétti og hegningarlögum. Rannsóknir á reynslu og hugmyndum þolenda kynferðisbrota sýna aftur á móti að réttlætið er mun flóknara fyrirbæri sem getur tekur á sig ólíkar myndir eftir aðstæðum fólks og getur tekið breytingum yfir tíma. Á ráðstefnunni Recognising Sexual Violence: Developing Pathways to Survivor-Centred Justice verður fjallað um hvernig við tökum þolendamiðað réttlæti alvarlega en það krefst þess að við endurhugsum ólík réttlætiskerfi og þróum pólitískar, félagslegar og lagalegar leiðir að réttlæti í þeim tilgangi að mæta betur réttlætishagsmunum þolenda. Þá verður fjallað um hvernig hægt er að leiðrétta þann réttlætishalla sem þolendur kynferðisofbeldis búa við – þá bæði gagnvart ríkinu og þeim sem ofbeldinu beita. Ráðstefnan samanstendur af sex málstofum þar sem leitast verður við að svara þessum spurningum út frá ólíkum nálgunum, þ.m.t. refsirétti, skaðabótarétti, fagráðum um kynferðisofbeldi, uppbyggilegri réttvísi, umbreytandi réttlæti, og samfélagslegum ábyrgðarferlum.
Ráðstefnan fer fram í Hátíðarsal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands þann 28. september 2022. Ráðstefnan er öllum opin, skráning á ráðstefnuna er hér að neðan og upptökur af henni verða gerðar aðgengilegar að henni lokinni.
Ráðstefnan er skipulögð af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við Lundarháskóla og Oslóarháskóla. Jafnréttissjóður Íslands, Norræna ráðherranefndin og forsætisráðuneytið styrkja ráðstefnuna.
Nánari upplýsingar, skráningu og dagskrá má nálgast hér.