Þann 11. janúar flytja Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræðum og Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kristjánsdóttir, félagar úr Bríeti, fyrirlesturinn Feminísmi við aldamót – úreltur boðskapur eða brýn samfélagsrýni?

Hvað eru bryddingar og píkutorfa, og hvað eiga þær sameiginlegt? Bæði orðin leiða hugann að konum, lífi kvenna, kvenlíkömum. Bryddingar skírskota til fornra kvendyggða og kvennamenningar en fela jafnframt í sér gagnrýni og nýnæmi. Píkutorfa er ögrandi munnsöfnuður um hóp kvenna sem æðir áfram af krafti eins og síldartorfa.

Í rabbi Rannsóknastofu í kvennafræðum munu fulltrúar tveggja kynslóða femínista kynna nýútkomnar bækur sínar sem bera einmitt þessa merkingarbæru titla. Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræðum kynnir bók sína Bryddingar og Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kristjánsdóttir úr Bríeti, kynna Píkutorfuna.

Bryddingar er safn 14 greina sem skrifaðar eru í mismunandi samhengi. Nokkrar eru akademískar að formi og inntaki, aðrar eru innlegg í jafnréttisumræðuna og átakamál líðandi stundar. Þær sýna að kynjafræði sem akademískt fræðasvið á brýnt erindi við þjóðfélagsumræðuna.

Píkutorfan er að stofni til þýðing á sænsku bókinni Fittstim, sem geymir 20 greinar um hvernig það er að vera ung stelpa. Þær fjalla á hreinskilinn hátt um óskrifaðar reglur kynjahlutverkanna og hvernig má gera líf ungra kvenna bærilegra, skemmtilegra og réttlátara. Báðar bækurnar eru innlegg í kynjaumræðuna í dag og báðar byggja á þeirri grunnhugmynd að femínismi sé „vakning, samvinna, gagnrýni og vilji til að bæta og breyta“, eins og segir í Píkutorfunni.