Þann 15. nóvember flytur Páll Biering, hjúkrunarfræðingur, fyrirlesturinn Kynjamunur á skilningi og viðhorfum ofbeldisfullra unglinga til unglingaofbeldis.

Í rabbinu mun Páll Biering segja frá nokkrum niðurstöðum úr doktorsrannsókn sinni. Tilgangur hennar var að greina skýringarlíkön unglingaofbeldis á meðal unglinga, sem vistaðir voru á meðferðarstofnun vegna ofbeldis og annarra hegðunarvandamála, foreldra þeirra og ummönnunaraðila. Í rabbinu verður fjallað um kynjamun sem fram kemur í skýringarlíkönum unglinganna. Samkvæmt skilningi unglinganna var reiði megin orsakaþáttur ofbeldishegðunar þeirra. Í skýringarlíkönum stúlknanna var ofbeldi útrás fyrir reiðina sem stafaði af sársaukafullri reynslu. Þessi sársaukafulla reynsla tengdist oftast tilfinningalegum áföllum. Aftur á móti röktu piltarnir ekki reiði sína aftur til fyrri reynslu heldur töldu hana stafa af því að einhver stæði í vegi fyrir þeim eða ógnaði þeim. Í skýringarlíkönum piltanna er ofbeldið leið til að komast af í „stríðsmenningu“ götudrengjanna – ofbeldisverkin færa þeim virðingu og orðstír.

Stúlkurnar trúðu því að það mundi hjálpa þeim að breyta hegðun sinni að vinna úr sársaukafullri reynslu og tilfinningum. Þær töldu sig líka hafa þörf fyrir sálfræðilega meðferð og sjálfshjálparhópa. Piltarnir lýstu engum slíkum þörfum, en lögðu aðaláherslu á nauðsyn þess að taka skynsamlegar ákvarðanir, að hætta í ruglinu og fara í skóla eða vinnu. Þessar niðurstöður eru studdar af kenningum feminista um að hegðunarvandamál unglingsstúlkna séu háð tengslum þeirra við aðra, bæði foreldra og félaga, en hegðunarvandamál drengja séu, a.m.k í þeirra eigin augum, hlutskipti sem þeir velja sér sjálfir. Í félagahópnum eru náin persónuleg tengsl þýðingarmest fyrir stúlkurnar en fyrir piltana reglur hópsins og staða þeirra í valdastrúktúr hans. Séu niðurstöður rannsóknarinnar túlkaðar í ljósi þessara kenninga vaknar sú spurning hvort meðferðarþarfir stúlknanna séu aðrar en meðferðarþarfir piltanna.