Spinoza, vinátta og femínismi

Þann 1. nóvember flytur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sagnfræðingur, fyrirlesturinn Spinoza, vinátta og femínismi.

Femínistar samtímans vitna oft í heimspekinga 17. aldarinnar, og þá einna helst í Descartes, til að lýsa ákveðnum hornsteini í hjarta vestrænnar heimspeki. Í þessari mynd af 17. öld eru konur skrifaðar út úr menningunni inn í hinn óumbreytanlega heim náttúrunnar og tvíhyggja er allsráðandi: líkaminn-konan-náttúran stendur í ævarandi mótsögn og undirgefni við sálina-karlmanninn-menninguna. Í þessu rabbi verður annars konar saga sögð af 17. aldar heimspeki. Saga þar sem femínísk fræði nútímans geta leitað í 350 ára gamla sjóði til að grafa undan þeirri tvíhyggju sem við svo oft rekjum til þessa tíma. Þetta er saga þar sem hinni hefðbundnu tvíhyggju er hafnað, þar sem líkami og sál eru ein órjúfanleg heild, tvær hliðar á sama veruleikanum. Líkaminn er í brennidepli – margbreytilegir líkamar sem aldrei eru eins frá einni stund til annarrar og sífelldum breytingum háðir, brennimerktir tilfinningum og ímyndunum annarra slíkra líkama, sem og rökum þeirra og skynsemi. Líkamar eru „ferli“ sem aldrei klárast, eru í stöðugri vinnslu rétt eins og andinn, og eiga því jafn mikið heima í menningunni eins og í náttúrunni. Grafið er undan hugmyndinni um „einstakling“, skýrt afmarkaður frá öðrum slíkum, og tilurð hins frjálsa vilja er hafnað. Þetta er saga hugmynda 17. aldar heimspekingsins Baruch de Spinoza. Sú saga snýst fyrst og fremst um möguleika manneskjunnar til frelsis, og þau borgaralegu tengsl og samfélag sem maðurinn verður að rækta til að geta færst nær raunverulegu frelsi og sjálfsskilningi.