Fimmtudaginn 13. febrúar kl. 16:00-17:30 hélt Oddný Mjöll Arnardóttir lögfræðingur fyrirlesturinn Jafnrétti og bann við mismunun í Mannréttindasáttmála Evrópu í stofu 101 í Lögbergi.

Erindið greinir frá doktorsrannsókn hennar sem bar titilinn „Equality and Non-discrimination in the European Convention on Human Rights; Towards a Substantive Approach“ en hún varði doktorsritgerðina í maí 2002.

Í rannsókninni – og erindinu þann 13. febrúar – er fjallað um jafnræðisreglur 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 1. gr. viðauka nr. 12 við sáttmálann sem ekki hefur enn tekið gildi. Sett er fram módel þriggja þátta sem hafa áhrif á það hversu strangt jafnræðisreglu 14. gr. sáttmálans er beitt í dómaframkvæmd. Þessir þættir eru tegund mismununar, grundvöllur mismununar og þeir hagsmunir sem í húfi eru. Undir þeim áhrifaþætti sem nefnist tegund mismununar er sett fram nýtt hugtak, „passive discrimination“ eða óvirk mismunun, sem ætlað er að ná yfir jákvæðar skyldur ríkja. Það hefur verið viðtekið viðhorf að dómaframkvæmd á grundvelli 14. gr. sáttmálans sé óskýr og ósamstæð. Það módel áhrifaþátta sem þróað er í rannsókninni skýrir þessa dómaframkvæmd og felur í sér nálgun sem er hæf til að takast á við hinn nýja viðauka nr. 12 við sáttmálann. Það er einnig niðurstaða rannsóknarinnar að áhrifaþættirnir skýri það hvenær sönnunarbyrði í máli flyst frá einstaklingi yfir á ríki sem og það hvenær 14 gr. sáttmálans er tekin til skoðunar í máli. Greining áhrifaþátta í rannsókninni styður þá ályktun að nálgun Mannréttindasáttmálans sé í auknum mæli að færast frá því að vera formleg yfir í að vera efnisleg.

Doktorsritgerðin kemur út nokkuð aukin og uppfærð í bókinni Equality and Non-Discrimination under the European Convention on Human Rights sem tilheyrir ritröðinni International Studies in Human Rights sem gefin er út af Kluwer Academic Publishers.