Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða stjórnun sjúkrastofnanna út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og einnig að athuga hvort kynferði hafi áhrif á þá togstreitu sem gætt hefur milli lækna og hjúkrunarfræðinga. Heilbrigðisþjónustan einkennist af kynskiptingu fagstétta þar sem 98% starfandi hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru konur, mikill meirihluti starfsfólks heilbrigðissþjónustunar eru konur en karlar eru í meirihluta í læknastétt. Ennfremur eru allir framkvæmdastjórar sjúkrahúsa karlmenn. Athuguð voru viðhorf kvenstjórnenda innan lækninga og hjúkrunar til stjórnunar auk þess að greina viðhorf þeirra til yfirlýsinga lækna um að afnema þurfi með lagabreytingu tvískiptingu faglegrar stjórnunar milli lækninga og hjúkrunar og að læknar fái meira forræði yfir sjúkradeildum.

Aðferð: Um er að ræða reynslubundna rannsókn sem byggir á eigindlegum aðferðum. Ákveðið tilfelli (case study) var skoðað, þ.e. ofangreind kröfugerð lækna og tekin voru hálfstöðluð opin viðtöl við 10 konur sem voru í stjórnunarstöðum innan hjúkrunar og lækninga. Einnig var fyrir þær lagður spurningarlisti þar sem beðið var um lýðfræðilegar upplýsingar og leitað eftir viðhorfum þeirra til stjórnunar.

Niðurstöður: Helstu niðurstöður gefa til kynna að togstreita milli lækna og hjúkrunarfræðinga snýst um völd. Því er haldið fram að baráttan um völdin sé kynjuð og að valdapíramídi sjúkrahúsa sé í raun kynjaður (kynbundinn). Þrjú þemu voru greind úr viðtölum kvennanna; að hafa völd, að vera valdalaus og að fela öðrum vald. Þrátt fyrir að konurnar legðu áherslu á mikilvægi sinnar stéttar fyrir heilbrigðisþjónustuna höfðu þær svipaðar skoðanir á stjórnun óháð því hvorri séttinni þær tilheyrðu og tileinkuðu sér umbreytanlegan stjórnunarstíl sem hingað til hefur verið skilgreindur sem kvenlegur stjórnunarstíll.

Umræður: Undanfarin ár hefur mikil áhersla verði lögð á hagræðingu og styrka stjórnun innan heilbrigðiskerfisins. Segja má að hinn harði stjórnunarstíll hafi verið innleiddur inn í heilbrigðiskerfið, kerfi þar sem um 80% starfsmanna eru konur. Karlar sitja í valdamestu stöðunum og konur sem eru í stjórnunarstöðum bera enn hitan og þungan af heimilisstörfunum og uppeldi barna sinna.