Rannsóknum á vinnu kvenna og karla út frá kynjasjónarmiði hefur fjölgað mikið á síðustu áratugum. Fjöldi rannsókna og kenninga eru einnig fyrir hendi um það hvernig hugmyndin um kyn skapast og endurskapast í þjóðfélögum (Sjá t.d. Roman, 1994, Alvesson & Billing, 1997, Hartmann, 1982, Walby, 1990). Í stjórnunarfræðum hefur athyglinni sérstaklega verið beint að rannsóknum og þróun kenninga varðandi konur í stjórnunarstörfum. Má skipta þeim rannsóknum í nokkra flokka. Í fyrsta lagi er um að ræða rannsóknir sem beint hafa athyglinni að muninum milli kvenna og karla. Í öðru lagi má nefna rannsóknir sem leggja áherslu á hvernig skipulag og menning stofnana hafa áhrif á starfsfólk (organizational context). Í þriðja lagi rannsóknir sem lúta að kynjamismunun (discrimination) og í fjórða lagi rannsóknir um vald í stofnunum (Adler & Izraeli, 1994; Padgett, 1993).

Þessar rannsóknir hafa að meginstefnu til beinst að kvenstjórnendum hjá einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum þar sem konur eru í minnihluta og mismunun gagnvart þeim. Mun minni áhersla hefur verið á að rannsaka kven-og karlstjórnendur sem vinna á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta. Þó hafa slíkar rannsóknir verið gerðar á kven-og karlstjórnendum í félags, heilbrigðis og skólakerfi t.d. í Noregi, Bretlandi og á Íslandi.

Erindið er byggt á rannsókninni vinnumhverfi stjórnenda í félagsþjónustu á Íslandi. Rannsóknin byggir á megindlegri og eigindlegri gagnaöflun og var athyglinni beint að spurningunni um hvort kynferði hefði áhrif á ýmsa þætti í vinnumhverfi stjórnendanna. Í erindinu verður fjallað um markmið rannsóknarinnar, aðferðir sem notaðar voru og kynntar verða niðurstöður um stjórnunaraðferðir og vinnuumhverfi þar sem konur vinna í meirihluta. Niðurstöður verða bornar saman við erlendar rannsóknir á þessu sviði.