Þann 3. apríl kl. 12:00-13:00 flytur Helga Kress bókmenntafræðingur fyrirlesturinn Úr minjasafni föðurins. Ævisaga Maríu Stephensen (1883-1907), laundóttur Þorvalds Thoroddsen, sögð í bréfum í stofu 101 í Lögbergi.
Fjallað verður um ævi Maríu Stephensen (1883-1907), laundóttur Þorvalds Thoroddsen, náttúrufræðings og síðar prófessors í Kaupmannahöfn, sem hann eignaðist með vinnukonu á Möðruvöllum þegar hann var þar kennari. María ólst upp við gott atlæti hjá fósturforeldrum á Akureyri og fékk alla þá menntun sem um síðustu aldamót stóð stúlkum til boða á Íslandi. Hún lagði einkum stund á tónlist og tungumál og langaði til að fullnuma sig í píanóleik erlendis. Þar mætti hún hins vegar fyrirstöðu, m.a. hjá föður sínum sem bauðst til að styrkja hana til barnakennaranáms. Áður en úrslit fengust í því máli veiktist María af berklum og lést á heilsuhæli í Danmörku aðeins tuttugu og þriggja ára að aldri. Hún lét eftir sig mikið af bréfum sem varðveist hafa í bréfasafni Þorvalds í Konungsbókhlöðunni í Kaupmannahöfn, en þar er einnig að finna bréf frá fósturforeldrum Maríu, fjölskyldu Þorvalds sem og uppköst að mikilvægustu bréfum hans sjálfs til Maríu og fósturforeldra hennar (sem að öðru leyti virðast hafa glatast).
Úr þessum efnivið og ekki síst orðræðu bréfanna, má rekja ævisögu Maríu frá skírn til greftrunar, viðbrögð við fæðingu hennar og tilvist sem óskilgetins barns, menntaþrá hennar og leit að sjálfsmynd, ást og umhyggju fósturforeldranna og höfnun föðurins sem hún dáði mjög og vildi allt til vinna að gera til geðs. Um móðurina finnast hins vegar engar heimildir aðrar en nafnið tómt. Ævi Maríu og umhverfi gefa tilefni til ýmissa kvennafræðilegra spurninga auk þess sem komið verður inn á persónuleg bréf sem heimildir og þau siðfræðilegu vandamál sem í því felast að hnýsast án leyfis í einkamál manna jafnvel þótt í fræðilegu augnamiði sé og birta þau.