3. mars heldur Gyða Margrét Pétursdóttir, félagsfræðingur fyrirlesturinn „Ég er tilbúin að gefa svo mikið.“ Sjálfsmyndir kvenna og samskipti kynjanna.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um sjálfsmyndir kvenna, hlutverk og samskipti kynjanna. Tekin voru eigindleg viðtöl við mæður og feður í sambúð. Mæðurnar eru aðalumönnunaraðilar barnanna, litið er svo á að karlar séu fyrirvinnur. Samskipti og verkaskipting paranna litast af hugmyndum um ólíkt eðli, getu og hlutverk karla og kvenna. Sjálfsmyndir mæðranna byggja annars vegar á hugmyndum um hina útivinnandi konu og hins vegar á hugmyndum um móðurina. Til grundvallar greiningunni liggja kenningar um sjálfræði kvenna, karllæg viðmið og mótsagnirnar sem af þeim hljótast. Réttlætis- og umhyggjusjónarmið eru forsenda sjálfræðis kvenna sem aftur er forsenda kynjajafnréttis. Í heild má segja að mæðurnar afneiti sér til að geta sinnt hlutverkum sínum, þær gefa en fá ekki til baka. Það stendur sjálfræði þeirra fyrir þrifum.
Gyða Margrét Pétursdóttir er „þessi sem hefur alltaf þurft að vera með sömu laun og hann“; framagjarn, femínisti með forsjá tveggja barna. Lauk BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands 2002, MA prófi í félags- og kynjafræði frá sama skóla 2004. Lokaritgerð hennar ber heitið „Ég er tilbúin að gefa svo mikið“. Sjálfræði, karllæg viðmið og mótsagnir í lífi útivinnandi mæðra og orðræðum um ólíkt eðli, getu og hlutverk. Gyða stundar nú doktorsnám og starfar á Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við HÍ.