Auglýst var eftir verkefnisstjórum til starfa hjá RIKK, GEST og EDDU í sumar og lauk ráðningarferlinu í september. Fjórir nýir starfsmenn hefja störf í októbermánuði: Erla Hlín Hjálmarsdóttir og Gerður Gestsdóttir voru ráðnar verkefnisstjórar við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST), Kristín I. Pálsdóttir verkefnisstjóri RIKK og Marta Birna Baldursdóttir verkefnisstjóri EDDU.
Erla Hlín er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Dalhousie-háskóla í Kanada og leggur nú lokahönd á doktorsritgerð í sama fagi við HÍ þar sem hún skoðar árangur þróunarsamvinnu á sviði vatnsmála í sveitahéruðum Namibíu. Hún hefur starfað sem stundakennari og aðjúnkt við Háskóla Íslands frá árinu 2011 og hefur jafnframt víðtæka reynslu af verkefnisstjórnun en hún var m.a. í fimm ár deildarstjóri innan stjórnsýslusviðs og staðgengill framkvæmdastjóra sviðsins í flugflotastöð Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.
Gerður er með MA-próf í þróunarfræðum frá Manchester-háskóla og hefur langa starfsreynslu á sviði þróunarsamvinnu og innflytjendamála, en hún hefur m.a. starfað í Alþjóðahúsinu, hjá Vinnumálastofnun og fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva.
Kristín I. Pálsdóttir er með MA-próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og leggur nú lokahönd á meistararitgerð í almennri bókmenntafræði við HÍ. Hún hefur starfað við þýðingar og textaskrif í mörg ár; hún hefur einnig fjölþætta reynslu af verkefnisstjórnun m.a. sem starfsmaður Bókasafns og Listasals Mosfellsbæjar en einnig í femínísku grasrótarstarfi.
Marta Birna lauk meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Columbia-háskóla í New York með áherslu á alþjóðasamskipti og sérhæfingu í mannréttinda- og kynjamálum. Marta er sérfræðingur á sviði verkefnisstjórnunar en hún starfaði hjá samgönguráðuneytinu og í framhaldinu hjá innanríkisráðuneytinu í fimm ár, fyrst við skjalastjórnun og síðan sem gæðastjóri. Áður starfaði hún við starfsráðgjöf við School of Oriental and African Studies í London.
Þær Erla Hlín, Gerður, Kristín og Marta Birna eru boðnar velkomnar til starfa. Starfsfólk sem hefur átt ríkan þátt í uppbyggingu og rekstri stofnananna á undanförnum árum hverfur jafnframt til annarra starfa og í frekara nám.
Hildur Fjóla Antonsdóttir, sem starfaði sem verkefnisstjóri frá árinu 2010, hætti störfum í ágúst síðastliðnum, en þá hóf hún doktorsnám við Lundarháskóla í Svíþjóð. Rakel Adolphsdóttir, sem starfaði sem aðstoðarmaður og verkefnisstjóri frá árinu 2012, hefur tekið sér hlé frá vinnu til að ljúka framhaldsnámi í sagnfræði við HÍ. Lilja Dóra Kolbeinsdóttir lauk einnig störfum fyrir GEST fyrir nokkru, en hún starfar nú hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Mósambik. Þeim eru færðar þakkir fyrir frábær störf og samstarf og óskað farsældar á nýjum vettvangi.