Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur flutti fyrirlestur fimmtudaginn 26. október kl. 15.00 í Öskju, stofu 132. Árið 2006 voru liðin 75 ár frá því að Katrín Thoroddsen læknir flutti fyrirlestur um takmarkanir barneigna sem vakti mikla athygli. Hann var síðar fluttur í útvarpi og loks gefinn út. Takmarkanir barneigna voru mikið feimnismál en jafnframt deilumál. Innan kvennahreyfinga og verkalýðshreyfinga í Evrópu og Bandaríkjunum var hart deilt um réttinn til að grípa fram fyrir hendur guðs og náttúrunnar og hverjum það væri til gagns eða ógagns. Á 19. öld brugðust stjórnvöld og kirkjur, einkum í Bandaríkjunum, hart við allri slíkri fræðslu og var fólk dæmt til fangelsisvistar fyrir það eitt að dreifa bæklingum. Hér á landi ríkti þögnin þar til einn og einn bæklingur og bækur tóku að koma út á þriðja áratugnum. Katrín Thoroddsen braut svo ísinn með því að fræða fólk opinberlega en það vakti misjöfn viðbrögð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um Katrínu, ævi hennar, störf og framlag til takmarkana barneigna og baráttumála kvenna.
Kristín Ástgeirsdóttir er MA í sagnfræði og gegnir nú starfi forstöðumanns Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum.