Ráðstefna um konur, fíkn, áföll og meðferð

Ráðstefna um konur, fíkn, áföll og meðferð verður haldin á Grand hótel, Sigtúni 38, 105 Reykjavík, 1.-2.september 2015.Konur, fíkn, áföll og meðferð

Dagskrá 

Skráning

Ráðstefnan á Facebook

Tilgangur

Tilgangur ráðstefnunnar er að auka skilning og þekkingu á kynjafræðilegu sjónarhorni á fíkn, áföll og meðferð og á nauðsyn kynjamiðaðrar meðferðar. Ráðstefnan mun einnig koma á samvinnu norrænna fræðimanna og fagfólks sem beinir sjónum að sálfélagslegum raunveruleika kvenna og áfallareynslu þeirra í tengslum við fíkn og meðferð.

Markmið

Markmið ráðstefnunnar eru að:

  • Stefna saman norrænum og alþjóðlegum sérfræðingum og fagfólki í meðferðar- og félagsþjónustu til að deila þekkingu um konur og tengsl áfalla og fíknar
  • Fræða um nauðsyn áfallamiðaðrar nálgunar í meðferð og hvernig á að byggja upp áfallamiðaða þjónustu
  • Hvetja til myndunar samstarfsneta sem fjalla um konur og fíkn
  • Bjóða upp á vinnustofu fyrir konur með fíknivanda og áfallareynslu
  • Bjóða upp á vinnustofur fyrir fagfólk sem vinnur með konum með fíknivanda

Markhópur

Ráðstefnan er ætluð sálfræðingum, áfengis- og vímuefnaráðgjöfum, skólasálfræðingum, læknum, starfsmannastjórum, geðhjúkrunarfræðingum, starfsráðgjöfum, fjölskylduráðgjöfum, félagsráð­gjöfum, iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum og öðru fagfólki sem vinnur með fólki með fíknivanda.

Áhugafólk um málefnið er velkomið á ráðstefnuna sem og fólk sem glímt hefur við fíknivanda. Ein vinnustofa verður haldin fyrir konur á batavegi.

Fyrirlesarar

  • Dr. Stephanie S. Covington er aðalfyrirlesari ráðstefnunnar og einnig verður boðið upp á vinnustofur fyrir fagfólk og konur sem glímt hafa við fíknivanda með Stephanie. Hún er starfandi sálfræðingur, rithöfundur, ráðgjafi opinberra, aðila og stofnana, og fyrirlesari. Hún er frumkvöðull í rannsóknum og meðferð kvenna að því er varðar fíkn og bata frá henni. Covington hefur þróað nýstárlega, kynjaða og áfallamiðaða nálgun á meðferðarþörf kvenna og stúlkna sem bætir árangur í þjónustu þeirra sem veita konum þjónustu, hvort sem hún er rekin á vegum hins opinbera, félagasamtaka eða einkarekin.
  • Dr. Berglind Guðmundsdóttir er dósent í sálfræði við Læknadeild HÍ og yfirsálfræðingur Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Berglind lauk doktorsprófi frá Ríkisháskóla New York í Buffalo í Bandaríkjunum árið 2006 og sérhæfði hún sig í kvíðaröskunum og áhrifum áfalla. Berglind er virkur þátttakandi í rannsóknum og alþjóðlegri rannsóknarsamvinnu.
  • Grethe Kramer Berthelsen er framkvæmdastjóri meðferðarstöðvarinnar Katsorsaavik í Nuuk á Grænlandi.
  • Dr. Johan Edman er dósent í sögu og gegnir stöðu forstöðumanns við Rannsóknarstofnun um félagslegar rannsóknir um áfengi og fíkniefni við Stokkhólmsháskóla. Rannsóknir Johans hafa snúist um félagslega útskúfun og jaðarsetningu og hlutverk fíknimeðferðar í sænska velferðar­ríkinu. Hann hefur einnig rannsakað misnotkun og sjúkdómsvæðingu og kynjaðar lýsingar á vandanum í fíknimeðferð í Stokkhólmi á árunum 1916-2000.
  • MarieKathrine Poppel er MA í félagsráðgjöf og aðjúnkt við félagsráðgjafadeild háskólans á Grænlandi í Nuuk. MarieKathrine beinir rannsóknum sínum að heimilisofbeldi – ofbeldi karla gegn konum, kynferði og jafnrétti.
  • Sigrún Sigurðardóttir er lektor á heilbrigðisvísindasviði háskólans á Akureyri og doktorsnemi við Háskóla Íslands. Sigrún er sérfræðingur í erfiðum upplifunum í æsku og áhrifum þeirra á heilsufar og líðan síðar á ævinni.

Þema

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á síðustu áratugum á áföllum og áhrifum erfiðra upplifana í barnæsku á heilsufar síðar á ævinni hafa varpað ljósi á orsakasamhengi áfalla og fíknivanda. Sterk tengsl eru á milli áfalla, ekki síst í æsku, og þróunar sálrænna heilsufarsvandamála, þar á meðal áfengisfíknar, síðar á ævinni. Þeir sem lifa með afleiðingum áfalla hafa tilhneigingu til að nota áfengi sem sjálfsmeðhöndlun áfallatengdra einkenna.

Hætt er við að meðferð við fíknivanda kvenna sé gagnlítil ef hún tekur ekki tillit til þess félagslega raunveruleika sem konur búa við s.s. þeirrar staðreyndar að hátt hlutfall þeirra verður fyrir ofbeldi og annarri misnotkun. Saga um að hafa orðið fyrir ofbeldi eykur líkur á því að konur leiðist út í misnotkun áfengis og annarra vímuefna.

Þessi  þekking er að breyta aðferðum sem notaðar eru í meðferð kvenna en skimun hjá konum sem koma til meðferðar sýnir að um 80% þeirra hafa orðið fyrir ofbeldi. Þessi vitneskja kallar á breytta nálgunar í meðferð og hafa stofnendur Rótarinnar kallað eftir fjölbreytilegri meðferðarúrræðum sem byggð eru á gagnreyndri þekkingu og sálfélagslegri nálgun.

Mörgum spurningum er enn ósvarað um orsakir og meðferð fíknivanda en það er nú viðurkennt að umhverfisþættir, eins og erfiðar upplifanir í æsku, hafa mikil áhrif á þróun hans.

Kynjuð nálgun á fíknivanda hefur ekki verið ríkjandi á Íslandi fyrr en á allra síðustu árum og mikið verk er framundan í rannsóknum og meðferðarstarfi þar sem kynjafræðileg sjónarhorn eru höfð að leiðarljósi til að varpa sem skýrustu ljósi á vanda hvors kyns fyrir sig. Því er mikilvægt að fá til Íslands þekkingu á því hvernig stofnanir hafa breytt úr kynhlutlausri í kynjamiðaða meðferð í öðrum löndum.

Nýlegar rannsóknir skoða hvernig hreyfiafl meðferðar kvenna er, og hefur verið, ákveðnir félagslegir, menningarlegir, pólitískir og efnahagslegir þættir. Á grundvelli nýrra rannsókna og aukins skilnings á sálfélagslegum þáttum fíknivanda kvenna hefur hin svokallaða sjúkdómskenning um fíknivanda verið dregin í efa. Þar af leiðandi er söguleg greining á breyttum hugmyndum og hugsun varðandi stefnumótun í tengslum við fíknivanda nauðsynleg.

Rótin hefur hvatt yfirvöld á Íslandi til að þróa og innleiða gæðaviðmið og klínískar leiðbeiningar byggðar á gagnreyndri þekkingu fyrir fíknimeðferð, sérstaklega fyrir konur. Rótin hefur líka kallað eftir sjálfstæðum rannsóknum og háskólamenntum fyrir þá sem vinna við meðferð.

Þegar framansagt er haft í huga er ljóst að tími er kominn til að vekja máls á málefninu og fá erlenda sérfræðinga með nýja þekkingu hingað í þeim tilgangi að þoka umræðu um betra, skilvirkara, kynjamiðað og nútímalegt meðferðarkerfi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum í rétta átt notendum kerfisins til góða.

Þátttökugjald:

 Dagskrá  Kl.  Verð
 Ráðstefna 1. september   8:30-16:00  3.000 kr.
 Vinnustofur 2. september  9:00-16:00  5.000 kr.
 Alls fyrir báða daga    6.000 kr.
 Vinnustofa 1. september  19:00-21:00  1.000 kr. 

Aðstandendur

Rótin – félag um málefni kvenna með fíknivanda (http://www.rotin.is) hafði frumkvæði að ráð­stefnunni en RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (https://rikk.hi.is) sér um framkvæmd hennar. Aðrir samstarfsaðilar eru Jafnréttisstofa (http://jafnretti.is), Rannsóknar­stofnun um áfengi og vímuefni við Stokkhólmsháskóla (http://www.sorad.su.se/english), Heilbrigðis­ráðuneyti Grænlands, Rannsóknarstofnun um samfélag, efnahag og fjölmiðlun við Háskólann á Grænlandi, Reykjavíkurborg, Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og ReykjavíkurAkademían (http://akademia.is/forsida).

Stýrihópur

Hildigunnur Ólafsdóttir, doktor í félagsfræði og sjálfstætt starfandi fræðimaður við Reykjavíkur­akademíuna, Kristín I. Pálsdóttir, verkefnisstjóri hjá RIKK og talskona Rótarinnar, Hugrún Hjaltadóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu.

Ráðgjafar stýrihópsins: Berglind Guðmundsdóttir, doktor í sálfræði og dósent í sálfræði við Læknadeild HÍ og yfirsálfræðingur Landspítala – Háskólasjúkrahúss, Arna Hauksdóttir, doktor í heilbrigðisvísindum og dósent við Læknadeild HÍ og Miðstöð í lýðheilsuvísindum.

Nánari upplýsingar

Vegna nánari upplýsinga hafið samband við: Kristín I. Pálsdóttir, rikk[hja]hi.is.