Í apríl 2023 var haldin tveggja daga vinnustofa í rannsóknarverkefni um afnýlenduvæðingu háskólamenntunar í norrænu samhengi (Decolon-Ice), sem Giti Chandra, sérfræðingur hjá RIKK og Jafnréttisskóla Gró (GRÓ-GEST), leiðir. Í vinnustofunni komu kennarar frá Háskóla Íslands, sérstaklega frá Hugvísindasviði, Félagsvísindasviði og Menntavísindasviði, auk þátttakenda frá öðrum stofnunum, saman til þess að ræða afnýlenduvæðingu háskólamenntunar í íslensku samhengi. Verkefnið er styrkt af Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís).
Decolon-Ice er þátttökumiðað rannsóknarverkefni en eitt af markmiðum vinnustofunnar var að búa til vettvang fyrir kennara og rannsakendur við Háskóla Íslands til þess að ræða afnýlenduvæðingu í samhengi við kennsluáætlanir, kennslufræði og rannsóknarumhverfi. Alex Tickell, prófessor í bókmenntasögu við The Open University í Bretlandi var gestafyrirlesari vinnustofunnar. Tickell er forstöðumaður rannsóknarhóps um eftirlendu- og heimsbókmenntir og í erindi sínu greindi hann frá skrefum sem tekin hafa verið í átt að afnýlenduvæðingu kennsluefnis innan deildar enskra bókmennta við háskólann. Niðurstöður nemendamiðaðra rannsókna voru til umræðu en í rannsókn sem Tickell gerði ásamt fleirum greindu rannsakendur viðbrögð nemenda við sögulegum bókmenntatextum sem sýndu hugmyndafræði evrópskrar nýlendustefnu og rasisma og hugmyndir nemenda um hvernig skuli vinna með þær á gagnrýninn hátt.
Kennarar og rannsakendur við Háskóla Íslands fluttu erindi um nauðsyn aukinnar umfjöllunar um nýlendustefnu og sögu þrælaverslunar í íslensku kennsluefni, aðferðafræði „truflunar“ í kennslu þekktra heimsbókmennta, áskoranir samtalsformsins í kennslustofunni, eftirlendufræði og kynþáttun birtingarmynda líkamans sem og skörun rannsókna á nýlendustefnu og fötlunarfræða. Þá ræddu þátttakendur og fyrirlesarar hvernig hægt væri að auka aðgengi nemenda að nýlendusögu í tungumálakennslu, mikilvægi þess að gagnrýna vægi hvítleika í styrkveitingum innan alþjóðlega háskólasamfélagsins og nauðsyn þverfræðilegra samstarfshópa til þess að rannsaka arfleifð nýlenduhyggju í Háskóla Íslands.
Rannsóknarverkefnið miðar að því að skapa vettvang fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands til að rýna í kennsluskrár, rannsóknir og aðferðafræði út frá hugmyndum afnýlenduvæðingar. Í samvinnu við ýmsar deildir Háskóla Íslands er í verkefninu leitast við að sameina rannsakendur sem fást við þetta mikilvæga viðfangsefni til greiningar á aðferðafræði og stefnumótunar. Með reynslu og framtíðarsýn nemenda og starfsfólks að leiðarljósi stuðlar verkefnið að kortlagningu staðbundinna áhrifa alþjóðlegrar arfleifðar nýlenduhyggju á Íslandi og að leggja fram mikilvægar tillögur í átt að afnýlenduvæðingu. Skipuleggjendur vinnustofunnar voru Giti Chandra, Thomas Brorsen Smidt, verkefnisstjóri hjá GRÓ-GEST, Jovana Pavlović, aðstoðarmanneskja, og Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor í verkefninu. Fyrsta vinnustofa verkefnisins fór fram í september 2022.
Kristinn Ingvarsson tók ljósmyndir af vinnustofunni.